
Óvissuástand og átök í Búrkína Fasó
Fregnir bárust af því á sunnudag að flokkar hermanna, sem ósáttir eru við yfirstjórn hersins og hvernig baráttunni gegn vígasveitum íslamista í landinu hefur verið háttað, hefðu gert uppreisn gegn yfirboðurum sínum og náð nokkrum herstöðvum í landinu á sitt vald, meðal annars Lamizama-herstöðinni í Ouagadougou.
Krefjast þeir brottreksturs hershöfðingjanna og meiri og betri búnaðar, sem dugar til að takast á við vígasveitirnar, sem vaðið hafa uppi í landinu um margra ára skeið og framið þar fjölda grimmdarverka.
Hörð mótmæli í höfuðborginni
Fjöldi fólks lagðist á sveif með uppreisnarhermönnunum í höfuðborginni, segir í frétt AFP. Mótmælendur komu meðal annars upp vegartálmum á nokkrum helstu leiðum og fóru ránshendi um höfuðstöðvar flokks forsetans áður en þeir lögðu eld að byggingunni.
Lögreglu tókst á endanum að dreifa mannfjöldanum og stjórnvöld lýstu yfir útgöngubanni um óákveðinn tíma frá klukkan átta á sunnudagskvöld. Það hefur ekki haldið, ef marka má nýjustu fréttir.
Ríkisstjórnin hefur þvertekið fyrir að valdarán sé yfirvofandi og þeir hermenn sem risu gegn yfirboðurum sínum og hafa nokkrar af stærstu herstöðvum landsins á sínu valdi hafa heldur ekki krafist afsagnar forsetans eða stjórnar hans.