Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Laumufarþegi í hjólahólfi þotu lifði svaðilförina af

24.01.2022 - 02:52
Erlent · Afríka · Holland · Kenía · Suður Afríka · Evrópa
epaselect epa06303505 A Cargolux cargo plane flies in front of the moon on its way to Hong Kong International Airport in Hong Kong, China, 02 November 2017.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: epa
Sá fágæti atburður varð á sunnudag að laumufarþegi, sem kom sér fyrir í hjólahólfi flutningaþotu á leið frá Suður Afríku til Hollands, komst lifandi frá þessari svaðilför sinni. Herlögregla á Schiphol-flugvelli í Amsterdam greindi frá því í gær að maðurinn, sem faldi sig í hjólahólfinu sem geymir nefhjól þotunnar, hefði verið fluttur á sjúkrahús og að líðan hans væri eftir atvikum góð.

Joanna Helmonds, talskona herlögreglunnar, sagði enn ekki búið að staðfesta þjóðerni mannsins eða aldur, enda hefði höfuðáhersla verið lögð á að bjarga heilsu hans og lífi. „Það er  afar óvenjulegt að einhver lifi af fimbulkuldann í svona mikilli hæð - mjög, mjög óvenjulegt,“ sagði Helmonds í samtali við AFP-fréttastofuna.

Á hollensku sjónvarpsstöðinni NOS var greint frá því að byrjað hefði verið að reyna að hækka líkamshita mannsins strax og hann fannst, og að hann hefði verið farinn að svara einföldum spurningum um það leyti sem sjúkrabíll kom á vettvang.

Vélin sem maðurinn kom með var á vegum flugfélagsins Cargolux og flaug frá Jóhannesarborg í Suður-Afríku til Schiphol í Hollandi, og millilenti í Naíróbí í Kenía. Ekki er enn vitað hvort hann laumaði sér í hjólahólfið í Suður-Afríku eða Kenía. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV