
Keypti vændi af skjólstæðingi SÁÁ
Taldi að samskiptin væru „grafin og gleymd“
Einar sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í dag þar sem segir að hann hafi fyrir nokkrum árum „svarað auglýsingu á netinu þar sem í boði var kynlíf gegn greiðslu.“ Sú hegðun sé ófyrirgefanleg en hann hafi talið sér ranglega trú um að samskiptin væru grafin og gleymd og hefðu ekki áhrif á störf hans fyrir SÁÁ.
Anna Hildur Guðmundsdóttir, sem á sæti í framkvæmdastjórn SÁÁ, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að stjórnin hafi fengið tilkynningu á föstudag um að Einar hefði átt í samskiptum við vændiskonu, sem varð til þess að framkvæmdastjórnin kom saman í hádeginu í dag til að ræða málið. Einar staðfesti þá efni ábendingarinnar og sagði af sér. Hún vildi ekki upplýsa með hvaða hætti ábendingin hefði borist né hvernig hún var.
Staðfestir að Einar hafi keypt af sér kynlífsþjónustu
Yfirlýsingin birtir Einar í kjölfar rannsóknarvinnu Stundarinnar sem hefur undanfarið unnið að umfjöllun um vændiskaup Einars á árunum 2016-2018. Í umfjöllun Stundarinnar segir að miðillinn hafi undir höndum gögn sem sýni meðal annars samskipti Einars við konuna á Facebook. Stundin hefur að auki rætt við konuna sem er nú á batavegi eftir langvarandi fíkniefnaneyslu. Hún segist í samtali við Stundina hafa leiðst út í vændi til að fjármagna eiturlyfjaneyslu sína og á því tímabili hafi Einar keypt af henni kynlífsþjónustu. Eftir að hún náði bata hafi hún ætlað að leita réttar síns en hætt við að lokum og ekki kært. Nú sé málið fyrnt.
Þá segist Stundin hafa heimildir fyrir því að Embætti landlæknis hafi verið upplýst um málið árið 2020 og að minnst einn stjórnarmaður í framkvæmdastjórn SÁÁ hafi vitað af því að formaðurinn hafi keypt vændi af konu sem var veikur fíkniefnaneytandi.
Í viðtali við DV í júní 2020 sagði Einar að hann hafi byrjað að taka virkan þátt í félagsstarfi SÁÁ fyrir um áratug síðan. Samkvæmt því hann því virkur þátttakandi í samtökunum þegar hann kaupir vændi af skjólstæðingi þeirra.