Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Kalla sendiráðsfólk heim og vara við ferðum til Úkraínu

24.01.2022 - 03:42
epa09705617 (FILE) - Ukrainian National Guard soldiers stand near of the US Embassy in Kiev, Ukraine, 08 June 2017 (Reissued 23 January 2022). The US State department announced the reduction of staff levels in their embassy in Kyiv, starting with nonessential personnel and family members.  EPA-EFE/SERGEY DOLZHENKO
Úkraínskir þjóðvarðliðar á verði við bandaríska sendiráðið í Kænugarði Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandarísk stjórnvöld hafa fyrirskipað brottflutning á fjölskyldum starfsfólks í sendiráði Bandaríkjanna í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu. Jafnframt hefur því starfsfólki sendiráðsins sem ekki sinnir kjarnastarfsemi þess verið boðið að halda heim. Þá hvetur bandaríska utanríkisráðuneytið alla bandaríska ríkisborgara sem eru í Úkraínu til þess að yfirgefa landið, þar sem ekki sé hægt að tryggja öryggi þeirra í ljósi aðstæðna.

Ráðuneytið hefur gefið út ferðaviðvörun, þar sem Bandaríkjamenn eru eindregið varaðir við ferðum til Úkraínu vegna aukinnar ógnar sem stafi af rússneskum hernaðaraðgerðum, COVID-19, glæpum og ólgu í samfélaginu.

Í viðvöruninni segir að njósnir hafi borist af því að Rússar leggi á ráðin um miklar hernaðaraðgerðir gegn Úkraínu. Aðstæður séu ófyrirsjáanlegar, einkum í landamærahéruðum landsins, og geti versnað til muna með litlum fyrirvara.

Þá er varað við því að komi til hernaðaraðgerða Rússa einhvers staðar í Úkraínu muni það skerða mjög getu sendiráðsins til að sinna verkefnum sínum, svo sem að aðstoða fólk við að komast úr landi.

Rússar þvertaka fyrir að þeir hyggi á innrás í Úkraínu og saka vesturveldin um að ala á ótta og magna upp spennu í Úkraínudeilunni.