Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Guðlaugur Þór greindist með COVID-19 á landamærunum

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur greinst með COVID-19. Smitið var greint á landamærunum.

Hann er fimmti ráðherra ríkisstjórnarinnar sem sýkist af veirunni. Fyrir áramót smituðust þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, er einnig í einangrun með COVID-19 eftir utanlandsferð. Hann smitaðist í Ungverjalandi þar sem hann fylgist með íslenska karlalandsliðinu í handbolta keppa í undanriðli Evrópumóts.

Einkennalaus í fjarvinnu

Guðlaugur tilkynnti smitið í Facebook færslu í morgun, þar sem hann segist einkennalaus og vera við hestaheilsu. Hann segir jákvætt hve auðvelt sé orðið að sinna fjarvinnu, en hann muni þó sakna þess að hitta fólk.

Smitið greindist á landamærunum, eftir utanlandsferð ráðherrans með eiginkonu sinni. Tilefnið var 20 ára brúðkaupsafmæli þeirra hjóna.