Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Aflétta þarf takmörkunum sem engar forsendur séu fyrir

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RUV
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir forsendur fyrir gildandi sóttvarnareglum brostnar og því verði að hefja afléttingu þeirra á næstu vikum. Þetta kemur fram í viðtali við Bjarna á mbl.is í kvöld, þar sem hann segir að taka verði því alvarlega og bregðast við skjótt, þegar forsendur fyrir skerðingu á frelsi fólks hafi breyst.

Í viðtalinu bendir Bjarni á að þrátt fyrir mun fleiri smit nú en áður fari sjúkrahúsinnlögnum vegna þeirra fækkandi, örfáir séu á gjörgæslu og að ekki hafi þurft að leggja neinn inn á gjörgæslu, sem fengið hafi örvunarskammt. Staðan undanfarna daga er mun betri en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir, segir Bjarni.

Á móti komi mikill mönnunarvandi á Landspítala og mikið álag á nokkrum deildum, en hann sjái ekki betur en að heilbrigðisráðherra sé að leita ráða til að bregðast við því.

Allt þetta eigi að gefa tilefni til að vinda ofan af þeim sóttvarnaráðstöfunum sem síðast voru innleiddar, hið minnsta, að hans mati, „[þ]ví helstu forsendur fyrir því að grípa til hertra ráðstafana um miðjan mánuðinn eru ekki lengur til staðar,“ segir ráðherrann.

Ekki mistök að herða

Hann vill þó ekki meina að það hafi verið mistök að fara í þær hertu ráðstafanir, enda hefði hann alltaf stutt það, að fara varlega. Hins vegar væru það mistök að bregðast ekki við nú, þegar forsendur þeirra ráðstafana, og þar með „forsendur fyrir því að þrengja að atvinnufrelsi og persónufrelsi fólks í landinu“ eru ekki lengur til staðar.