Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Vill að bæjaryfirvöld ræði mál skipstjórans

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hvorki hefur verið rætt í bæjarstjórn eða bæjarráði Vestmannaeyjabæjar um að skipstjóri á Herjólfi hafi siglt réttindalaus í um tíu daga um jólin. Oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórna ætlar að óska eftir því og segir eðlilegt að bærinn sem eigi eina hlutabréfið í útgerð Herjólfs taki á því. 

Forsvarsmenn Herjólfs ohf. stefna að því að halda fund með áhöfnum Herjólfs í dag um að réttindalaus skipstjóri hafa siglt skipinu í um tíu daga í lok desember. Þetta mun vera fyrsti fundurinn sem forsvarsmenn Herjólfs fara yfir málið með starfsfólki.

Skipstjórinn, sem var áminntur og lækkaður í tign þegar upp komst skráði aðra sem skipstjóra í þeim ferðum sem hann sigldi réttindalaus.

Framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar sem ásamt Samgöngustofu hefur eftirlit með því að einungis lögskráðir sjómenn séu í áhöfn sagði í fréttum í gær að röng skráning og réttindaleysi væri brot á lögum.

Forstjóri Vegagerðarinnar, sem á Herjólf og er með samning við félag bæjarins, Herjólf ohf., sagði í fréttum í gær að það væri óviðunandi að þetta hefði gerst og ekki í samræmi við samning um rekstur ferjunnar.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn segist hafa brugðið þegar hún frétti af þessu. 

„Málið hafði borist mér til eyrna og ég hef óskað óformlega eftir upplýsingum frá bæjarstjóra en fengið takmarkaða upplýsingagjöf þar í gegn. En við höfum því miður ekki verið, bæjarfulltrúar, ekki verið upplýstir um þetta mál af hálfu hvorki bæjarstjóra sem heldur á eina hlutabréfinu, né öðrum.“

Munið þið óska eftir því að þetta verði rætt?

„Já, ég geri fastlega ráð fyrir því að málið verði til umræðu á næsta fundi bæjarráðs. Og ég lít eins og ég segi bara málið alvarlegum augum og geri ráð fyrir að það hljóti að vera forgangsmál að ræða þetta mál. Ég hef líka óskað eftir upplýsingum og verið í sambandi við okkar fulltrúa í stjórn Herjólfs varðandi málið,“ segir Hildur Sólveig Sigurðardóttir.