Það var í raun fyrir algjöra tilviljun að fjölskyldufaðirinn Örvar Þór Guðmundsson fór að setja af stað safnanir til að styrkja fólk sem á um sárt að binda. Upphaflega ætlaði hann bara að hjálpa einni konu en nú eru fjölskyldurnar og einstaklingarnir sem hann hefur styrkt orðin fjölmörg.
Eftir nokkur ár að söfnunum stofnaði hann góðgerðasamtökin Samferða ásamt Rúti Snorrasyni vini sínum. Markmið þeirra er að hjálpa sem flestum með sem minnstri yfirbyggingu. Viktoría Hermannsdóttir ræðir við Örvar, samstarfsmann hans Rút og nokkra þeirra sem hann hefur kynnst í gegnum styrkveitingarnar í þættinum Hvunndagshetjur sem er á dagskrá á RÚV í kvöld.
Átti aðeins 2000 krónur á reikningnum til að lifa í desember
Þetta hófst allt þegar Örvar var að keyra heim úr vinnunni árið 2012 og að hlusta á útvarpið. Þetta var í byrjun desember og inn hringdi kona sem vann í jólaleik fimmtán þúsund gjafabréf í fataverslun og jólatré. „Hún var svo þakklát,“ rifjar Örvar upp. „Hún var nýbúin að gefa móður sinni nýrað eða eitthvað, og lá á gjörgæslu. Í desember átti hún tvö þúsund á reikningnum til að lifa í tuttugu og níu daga og var rosalega glöð að vinna jólatré og gjafabréf fyrir einhverjum jólakjól.“
Örvar var hugsi yfir stöðunni hjá konunni yfir hátíðarnar svo hann hringdi í útvarpsmanninn til að hafa uppi á konunni. Hann fékk um þrjátíu aðila með sér í lið og saman söfnuðu þau hátt í tvö hundruð þúsund krónum fyrir konuna svo hún gæti farið í gegnum desember með reisn.
Fljótt höfðu safnast tvær milljónir
Nokkrum mánuðum síðar fór Örvar að fá fyrirspurnir og hvatningarpósta þar sem hann var hvattur til að taka upp þráðinn næstu jól. Hann setti sig í samband við Langveik börn og bað um aðstoð við að finna fjölskyldur sem hann gæti styrkt fyrir jólin. Eftir einn dag hafði hann safnað sex hundruð þúsundum. Snjóboltinn rúllaði hratt og að lokum höfðu safnast tæpar tvær milljónir. Örvar hélt áfram.