Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Meira sorp í urðun

23.01.2022 - 16:09
Mynd með færslu
Sorpurðun í Fíflholti. Myndin var tekin í gær, 19. maí 2019.  Mynd: Rakel Steinarsdóttir - Aðsend mynd
Þrjú sveitarfélög á Norðurlandi hentu hundrað tonnum meira af sorpi árið 2020 en árið 2017 samkvæmt nýjum tölum frá Gaumi, sem er sjálfbærniverkefni á Norðausturlandi. Verkefnisstjóri veltir fyrir sér hvort þar megi merkja áhrif faraldursins.

100 tonna aukning 

Gaumur hefur nú í fyrsta sinn birt gögn um meðferð og förgun úrgangs þriggja sveitarfélaga á Norðausturlandi. Sveitarfélögin eru Norðurþing, Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur.

Heildarmagn sorps á tímabilinu 2017 til 2020 hefur farið vaxandi, úr 577 tonnum í 678. Skoðunin er gerð á sorpi sem fer í endurvinnslu, lífrænum úrgangi til moltugerðar sem og því sem er urðað. Langmest er aukningin á því sorpi sem fer í urðun. Helena Eydís Ingólfsdóttir, verkefnastjóri hjá Þekkingarneti Þingeyinga, segir aukninguna ekki hægt að skýra með fólksfjölgun þó það hafi einhver áhrif.

„Verkefnið sem slíkt fer ekki beint ofan í það að túlka gögnin. Við viljum frekar eftirláta öðrum það. Við viljum bara safna þeim og birta þau. Það er þá annarra að túlka. En vissulega þegar maður sér að það er svolítil aukning, sérstaklega núna milli áranna 2019 og 2020, þá veltir maður því aðeins fyrir sér hvort við séum að sjá þarna covid-áhrif einhver, varðandi sorpmagnið,“ segir Helena.

Mikill munur á milli sveitarfélaga

Í gögnunum kemur þó fram að frá árinu 2018 hefur sorp dregist saman í Skútustaðahreppi og sömu sögu er að segja í Þingeyjarsveit frá 2019. Töluverður munur er því á milli sveitarfélaga. Árlega hendir hver íbúi í Skútustaðahreppi um 114 kílóum að meðaltali en íbúi í Norðurþingi um 181 kílóum.

„Það er mikill vilji innan verkefnisins að aðrir nýti gögnin. Þá getum við horft til t.d. sveitarfélaganna, stjórnsýslu þeirra, að þau geti nýtt gögnin við ákvarðanatöku. Skólasamfélagið nýti þau í kennslu. Háskólasamfélagið og rannsakendur geti nýtt það til frekari rannsókna og túlkunar,“ segir Helena.