Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Jaðarkonur fyrri tíma sem bættu hag dýra

Mynd: Dalrún / Jóhannes Sturlaugsson

Jaðarkonur fyrri tíma sem bættu hag dýra

23.01.2022 - 08:00

Höfundar

Fyrir hálfum mánuði hóf sagnfræðingurinn Dalrún Kaldavísl að velta fyrir sér sambandi íslenskra kvenna fyrri alda við náttúruna. Í dag veltir hún upp áhugaverðum hliðum á sambandi íslenskra föru- og einsetukvenna við blessuð dýrin í gamla bændasamfélaginu.

Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir skrifar:

Kyn og kynbundin hlutverk hafa haft áhrif á sýn og upplifun kvenna og karla á umhverfi sitt, bæði samfélag og náttúru, allt frá upphafi Íslandsbyggðar. Með því að skoða samband íslenskra kvenna og náttúrunnar sem þær hafa hrærst í, gefst tækifæri til þess að átta sig á sýn þeirra á náttúru landsins.

Forvitnilegt er í þessu sambandi að skoða hvernig sambandi íslenskra kvenna og dýra þessa lands hefur verið háttað um aldir. Slíkt er markmið þessa pistils. Mín nálgun felst í að segja frá áhugaverðu sambandi íslenskra förukvenna og einsetukvenna við dýr í gamla bændasamfélaginu. Saga föru- og einsetukvenna gefur innsýn í samband jaðarsettra kvenna og dýra fyrr á tíð. Sú saga miðlar viðhorfum kvenna sem margar hverjar álitu dýr vera jafningja sína; kvenna sem bjuggu að tilfinningagreind og skynsemi hvað varðar málefni dýra - hæfileika sem enn í dag er sjaldséður.

Í bók minni Jaðarkvennasaga: Förukonur og einsetukonur á Íslandi fjalla ég um konur sem voru á jaðri bændasamfélagsins sökum lífshátta sinna; föru- og einsetukonur. Förukonur voru konur sem voru á sífelldu ferðalagi á milli sveitabæja, þar sem þær báðu sér beina og þáðu gistingu. Einsetukonur hérlendis fyrr á tíð lifðu á hinn bóginn einar í kotum sínum til sveita og gjarnan í mikilli fátækt. Sagan sýnir að flakk og einseta eru ekki svo ólíkir lífsmátar þegar öllu er á botninn hvolft. Hér um ræðir lífshætti sem gáfu konum færi á að lifa óáreittar upp að vissu marki, í samfélagi sem gerði ekki ráð fyrir konum né körlum sem voru á skjön við það sem þá taldist eðlilegt fólk. Föru- og einsetukonur fyrri alda hef ég leyft mér til samans að kalla einlegðarkonur, því konur í báðum þeim hópum voru hvor á sinn hátt einangraðar frá hefðbundinni þátttöku í mannlífinu. Föru- og einsetukonum var gjarnan lýst sem sérstæðum konum; konum sem klæddust afkáralegum fatnaði; stundum með sérstakar matarvenjur; þær voru gjarnan skapmiklar, jafnvel orðljótar; oft á tíðum fornar í fasi; oftast einrænar; sumar hverjar mjög listrænar; langflestar sinnulausar; og höfðu iðulega litla starfsgetu. Mjög mörgum kvennanna var lýst á þann veg að þær hefðu strítt við andleg veikindi – og fortíð þeirra var einatt á huldu.

Það sem einkennir sögu föru- og einsetukvenna fyrr á öldum eru ekki síst lýsingar af sterkri samkennd margra þessara kvenna með húsdýrum sem þær umgengust – og villt dýr létu þær sig líka varða. Þessar konur voru það sem kallast annars vegar dýravinkonur og hins vegar dýraverndunarsinnar. Samhygð þessara einlegðarkvenna með dýrum gat reynst þeim torveld í gamla bændasamfélaginu, þar sem menningarbundnar hugmyndir manna fólu í sér grundvallarviðmið þar sem menn nutu réttinda en önnur dýr réttleysis. Sá skilningur sem þessar jaðarkonur höfðu á líðan dýra gamla bændasamfélagsins er skilningur sprottinn upp af reynslu þeirra sem þekkja á eigin skinni hvað það er að lifa á neðstu skörinni í þjóðfélagi manna. Saga föru- og einsetukvenna einkennist gjarnan af hörmum, ekki síst í tilfelli förukvennanna sem þurftu gjarnan að þola áföll og slæma meðferð umfram aðra í samfélaginu. Saga þeirra er rík af lýsingum sem sýna að gjarnan var komið fram við þær eins og dýr, jafnvel allt frá blautu barnsbeini.

Víkur þá sögunni fyrst að jaðarkonum fyrri tíma sem voru miklar dýravinkonur. Frásagnir af mörgum föru- og einsetukonum sýna hve félagsskapur dýra var þeim mikilsverður – svo dýrmætur að margar hverjar kusu félagsskap dýra fram yfir félagsskap manna: „Málleysingja, hunda og hesta / hún sem vini taldi besta,“ var ort um eina af förukonum Íslands. Líf jaðarkvenna og dýra var stundum svo samofið að mönnum fannst nóg um. Þá var sagt að ást kvennanna til dýranna gengi úr hófi fram, svo sem gjarnan er sagt þegar fólk kemur fram við dýr sem jafningja sína. Í því skyni að varpa ljósi á vináttu jaðarkvenna og dýra í bændasamfélaginu eru hér dregin fram fáein dæmi af umgengni einsetukvenna við dýrin sem þær héldu í kotum sínum.

Margar sagnir segja af samskiptum einsetukvenna við dýrin sem konurnar mátu gjarnan meira en mannfólk. Sögur fara af því hvernig einsetukonur hlúðu stundum af einstakri alúð að dýrum. Hér má nefna til sögunnar einsetukonuna Guðlaugu Runólfsdóttur sem fædd var árið 1869 og lést árið 1939; einsetukonu sem gekk í karlmannsfötum og reið klofvega. Guðlaug bjó í litlu koti í miðjum Haukadalsskógi í Biskupstungum þar sem hún stundaði sjálfsþurftarbúskap í skjóli trjánna. Guðlaug var líkt og margar einsetukonur sögð vera mikil dýravinkona. Í einsetunni stundaði hún garðrækt, hélt fjörutíu kindur, hundinn Sám og einn gráan hest, sem ku hafa heitið Lýsingur en hún Guðlaug kallaði hann ætíð „blessuð beinin.“ Þegar Guðlaug var búin að slá túnið sitt þá bar hún heyið heim í kot því ekki vildi hún að hesturinn, „blessuð beinin,“ væri að þreyta sig á því. Sömuleiðis reiddi hún gjarnan folann knáa „blessuð beinin“ þegar hún fór í kaupstaðarferð, svo hann þyrfti ekki að bera þunga hennar. Einnig má nefna einsetukonur sem bjuggu í mjög nánum samvistum við dýr í kotum sínum, líkt og einsetukonan Guðrún Þorgilsdóttir (1836–1919) sem ástundaði einyrkjabúskap á hjáleigubýli í Grímsnesinu sem í daglegu tali var kallað Riminn. Á Rimanum kom Guðrún sér upp kindastofni, um 40 mislitum, höttóttum og golsóttum kindum. Þegar fénaðinum fór fækkandi flutti Guðrún kindurnar inn í baðstofuna til sín, þar sem hún naut félagsskapar þeirra en jafnframt hlýjunnar sem af þeim stafaði, sem ekki veitti af í kaldri og rakri baðstofunni. Einsetukonan Sigríður Benjamínsdóttir (1869–1956) stundaði einsetulíf af sama meiði. Sigríður bjó í hjáleigunni Hamrabrekku í Eyjafirði; sérstæðu koti sem byggt var út frá kletti, sem þjónaði sem innsta þil kotsins. Einsetukonan Sigríður kemur því fyrir sjónir sem hálfgildings huldukona í kletti. Sigríður var með ketti í einsetunni, stóra og svarta á lit sem hún nefndi ætíð Tobba – og einnig fáeinar kindur. Sigríður hélt um tíma kindurnar í baðstofunni hjá sér, þar sem þær voru í spili. Sagt var að kindur Sigríðar væru kynlegar í háttum og lynti ekki við aðrar rollur – en til gamans má geta þess að lundarfari sauðfjár huldufólks var gjarnan lýst á sama veg.

Næst víkur sögu þessari að dýraverndun jaðarkvenna. Framlag kvenna til dýraverndunar er vel þekkt á heimsvísu í dag, til að mynda framlag Rachel Carson í þágu lífríkis náttúrunnar, framlag Jane Goodall í þágu simpansa, framlag Dian Fossey í þágu górilla, og barátta Alexandra Morton fyrir tilvist villtra laxa á okkar válegu tímum vegna laxeldis í sjókvíum. Framlög nefndra baráttukvenna þekkja menn vel í dag, en hér verður svarað spurningunni; hvernig börðust jaðarsettar konur á Íslandi fyrr á tímum fyrir velferð dýra, í samfélagi sem undirskipaði konur, hvað þá jaðarsettar konur. Hér er um að ræða dýraverndunarsinna á tímum þegar hugtakið dýraverndunarsinni var hreinlega ekki til, og rödd kvenna hafði lítið sem ekkert vægi.

Bændasamfélagið gekk út á ræktun og slátrun dýra mönnum til lífsviðurværis. Sagan sýnir hvernig menn beittu dýr valdi að eigin geðþótta; valdbeiting sem í sumum tilfellum tók á sig mynd dýraníðs - ofbeldi manna gegn dýrum. Það var ekki fyrr en árið 1869 þegar að fyrsta réttarheimildin um dýravernd leit dagsins ljós á Íslandi, að það varð loksins refsivert að níðast á dýrum.

Í því skyni að varpa ljósi á baráttu jaðarsettra kvenna í bændasamfélaginu fyrir bættum hag dýra, er hér vikið nokkrum orðum að tveimur af síðustu förukonum Íslands sem börðust fyrir dýravelferð í sveitum sínum, með kjafthætti og hótunum. Þessum förukonum var gjarnan fagnað af húsdýrum bæjanna sem þær sóttu heim – og fallegar eru frásagnirnar af því er dýrin veittu konunum fylgd á milli bæja. Fyrst ber að geta förukonunnar og dýraverndunarsinnans Jófríðar Þorkelsdóttur, sem fæddist árið 1865 og lést árið 1953. Jófríður flakkaði um Snæfellsnesið, íklædd mörgum lögum af svörtum klæðum, oftast prjónandi með halarófu af hundum frá ólíkum bæjum á eftir sér. Jófríður var hávaxin, stórgreind, skapmikil kona, sem naut sín ekki sem skyldi sökum andlegra veikinda sinna. Jófríður vantreysti samferðamönnum sínum, sagði að dýrin væru hennar einu sönnu vinir. Dýrin fögnuðu Jófríði þegar hún kom á bæina: „en mennirnir fagna aðeins, þegar ég fer frá þeim. Ósjálfrátt sýni ég dýrunum það besta, sem ég á til,“ mælti Jófríður eitt sinn. Jófríður hafði stingandi vatnsblá augu sem urðu svört af reiði ef hún sá að brotið var á dýrum. Í baráttu sinni fyrir velferð dýra beitti Jófríður óspart skapi sínu og mælsku. Í þeirri baráttu sinni spurði Jófríður ekki um stétt og stöðu gerendanna, hvort hún barðist við bónda, húsfreyju eða prest í þágu málleysingjanna. Líkt og þegar hún kallaði prest einn og byssueiganda, mannýgan tarf; „Þeir sækjast eftir lífi eins og þessir svonefndu veiðimenn,“ sagði Jófríður. Til að gefa innsýn í samkennd og baráttuanda Jófríðar, er hér nefndur gjörningur sem Jófríður framdi til að varða velferð dýra. Hér er vísað til þess þegar Jófríður faldi höfuðkúpu af folaldi sem var skorið á háls fyrir augum móður sinnar, hryssunnar, í farangri bóndans sem framdi verknaðinn svo hann gæti selt hryssuna hrossakaupmanni, - en sá bóndi var þá að flytja búferlum til Vesturheims. Mörgum áratugum síðar, árið 1929, skrifaði umræddur bóndi um gjörning Jófríðar í hinu merka riti Dýraverndaranum. Í þeirri grein lýsir bóndinn því þegar hann yfirgaf móðurlandið sjóleiðis, og syndinni sem fylgdi honum vestur um haf. Bóndinn skrifaði:

„Til lands fekk eg eigi horft... leit undan... sá allt í þoku... Mér skildist þá fyrst, að eg væri að yfirgefa ættjörð mína - myndi aldrei líta hana framar. Og svipað var því, sem eitthvað brysti mér í brjósti. Eg varð að leita mér styrks - einhvers staðar. Örlitla stund stóð eg eins og höggdofa. Svo mundi eg eftir brennivínsflöskunni í farskrínunni. Þangað fór eg, sem skrínan var. Óvart kom mér, að nú var festur við hana poki, og í honum varð mér fyrst fyrir hendi eitthvað hart, sem eg átti enga von til að væri þar. Eg leysti frá pokanum. Von gat eg átt á dauða mínum, en þessu ekki. Fyrir mér varð hvít og skinin höfuðkúpa af folaldi. Skrínuna opnaði eg aldrei að því sinni, og brennivínið lét eg óhreyft. Eg settist niður, þar sem eg var kominn. Í fyrstu festi eg sjón á engu. Allt varð að grárri hringiðu fyrir augum mér, og eg var svo hugstola. Síðan smáskýrðist allt fyrir hugaraugum mér. Eg sá hryssu standa yfir folaldi sínu - hálsskornu. Hún var dapureyg og hrygg, dró andann djúpt og þungt og lét munninn nema við folaldslíkið, eins og hún færði því hinzta kossinn. Um mig fór hrollur, helkaldur og nístandi sár, líkt og væri mér varpað á kaf í krapaelg. Og nú rifjaðist fyrir mér atburður, sem mér var í rauninni liðinn úr minni. Fjórum árum áður hafði eg skorið folald undan hryssu, sem eg átti, til þess eins, að geta degi síðar selt hana hrossakaupmanni. Og þetta verk vann eg með þeim hætti, að skera folaldið fyrir augum hryssunnar og láta hana síðan standa yfir líkinu. - Eg varð gripinn angist. Og nokkur andartök var sem mér hyrfi hugsun og megn. Svo var eins og spurt væri innst í fylgsnum sálar minnar: Hví vannst þú, maður, þetta skelmisverk á saklausri móðurástinni? Eg leitaðist eigi við að svara þessari hugsun - gat það ekki. En nú gæti eg leyst úr þessu með fullum sanni og jafnframt með blygðun í brjósti. - Eg mun hafa gert þetta af því, að margir töldu fyrir mér, að hryssum yrði minna um, ef folöldum þeirra væri lógað þeim á sjáandi! -- Höfuðkúpan hafði flækzt á ýmissa vegu, og eg skeytti því engu, hvar hún lægi. Nú var hún þarna komin. Hver gat verið valdur að þessu? Börnin mín gátu ekki hafa gert það. Eg fekk ekki varizt því, að hugurinn gruflaði eftir einhverri úrlausn, þó að þessi óvænta sýn olli sálarró minni eigi lítillar truflunar. Og huganum varð hvarflað heim að Hóli. Eg hafði búið um farangur okkar daginn áður en við færum að heiman, og Flökku-Fríða [Jófríður] bar allt að mér, sem fara skyldi - Flökku-Fríða! – Gátan var ráðin. Hún hafði komið höfuðkúpunni í farangur minn. Og nú stóð Flökku-Fríða fyrir sjónum mér, stór og ferleg, grimmeyg, blá og þrútin og ógurlega reið. Og mér fannst, að aftur dyndi á mér ávíturnar, heitingarnar og heiftin, sem hún hafði steypt yfir mig eftir að eg skar folaldið. Hún var eini maðurinn, sem vítti mig fyrir verkið. Öðrum mun hafa fundizt það eðlilegt, að fráskilinni konu minni. Og Flökku-Fríða bað mér margra bölbæna. Hún sagði, að skugginn af þessu verki skyldi fylgja mér til æviloka og loks inn í eilífðina. Svo fór hún að gráta. Og grátandi bað hún drottinn að vernda alla málleysingja – vernda þá fyrir djöfulæði mannanna. -- Eg mun hafa setið lengi og starað á þennan horfna atburð... Loks reis eg á fætur, greip höfuðkúpuna, gekk að öldustokknum og varpaði henni í hafið. Mér varð enn litið til lands. Öræfajökull var horfinn. Föðurlandið mitt var horfið. Eitt var mér þó ekki horfið. Skugginn af níðingsverki mínu féll að sál minni eins og ísingarstakkur. Og við því býst eg eigi, að hann fái að fullu horfið þaðan, fyrr en á banadægri mínu - megi það þá verða.“

(Einar Þorkelsson, „Skugginn“)

Þá næst víkur sögunni norður, að förukonunni og dýraverndunarsinnanum Margréti Sigurðardóttur (1869–1962). Saga Margrétar varð þjóðkunn þegar Ómar Ragnarsson gaf út bókina Manga með svartan vanga. Margrét hitti Ómar þegar hann var í sveit sem drengur. Förukonusaga Margrétar markast af samskiptaörðugleikum hennar við samferðamenn sína, en jafnframt af merkingarþrungnum samskiptum hennar við dýr. Fyrsta ástin í lífi Margrétar var svanur sem hún vingaðist við sem barn; svanur sem hún, bláfátækt stúlkubarn, hlúði að og gaf af sínum litla matarforða. Þegar Margrét hóf að flakka á sínum fullorðinsárum fylgdi henni gjarnan hópur dýra á flakki hennar á milli bæjanna í Langadalnum; kettir, hundar og jafnvel hænur fylgdu henni eftir. Margrét gætti alltaf að því að vera með einhvern bita fyrir dýrin í skjóðu sinni, líkt og fyrir svaninn sinn forðum daga. Margrét var talskona dýraréttinda í sinni heimasveit, og líkt og í tilfelli Jófríðar, reyndist magnað skap hennar Margrétar og mælska mikilvægt tól í baráttu hennar í þágu málleysingjanna. Enginn skal véfengja mátt skapvonsku kvenna sem beita henni í þágu lítilmagnans. Föru- og einsetukonur voru oft framandlegar í augum fólks, komu gjarnan fyrir sjónir sem eins konar vættaverur í bændasamfélaginu. Fólk hræddist þær á köflum – vissu ekki hverju þær gátu áorkað. Þekking fólks var þannig að það gat enginn útilokað að þessar jaðarkonur byggju yfir einhverjum krafti, fjölkynngi. Þetta var sams konar hræðslusamband og fólk upplifði gagnvart álfum, menn vissu ekki hvers álfarnir voru megnugir. Álfasögur sinntu á sinn hátt náttúru- og dýravernd, þegar spilað var á ótta manna í garð álfanna. Um það vitna þjóðsagnir af álagablettum og af boðskap álfasagna er fjalla um mikilvægi góðrar umgengni við dýr. Slík undirliggjandi óvissa getur sumsé verið mjög verndandi, ef henni er beitt rétt.

Víkur þá sögunni að upplýstum samtímanum, sem þrátt fyrir þekkingarstigið fóstrar myrkvaðan tíma í dýrasögu Íslands. Á Íslandi er fyrir nokkru genginn í garð tími markaðsvæddrar dýraræktunar, sem að umfangi er langt umfram það sem eðlileg sjónarmið geta skýrt – hvort þar er vísað í neikvæð áhrif á umhverfi, á heilsu manna og dýra eða þann skort á siðferði sem slíkri ræktun fylgir. Framleiðsla og neysla Íslendinga á dýraafurðum er óhófleg. Fylgifiskur þessa óhófs er eymd og vosbúð þeirra dýra sem fyrirtæki og fólk elur í hagnaðarskyni. Hvort heldur litið er til blóðtöku mera eða iðnaðareldis á dýrum, hvort sem þar um ræðir svín, hænsni, loðdýr eða laskaða eldislaxa í sjókvíum. Ömurleikinn er slíkur að það er aðeins hægt að vona; vona að konur stígi fram á Fróni, líkt og jaðarkvennaformæður þeirra forðum daga – og ljái málleysingjum Íslands rödd sína. Samtímasagan sýnir að nú er tími konunnar runninn upp – við konur skulum því sjá til þess að tími dýranna megi ganga í garð. Að dýrin hljóti náð í mæðraveldi.

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Kvenskörungar fyrri tíma sem gerðust aðgerðasinnar