Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Gaman að fá að feta í fótspor mömmu og pabba“

Mynd: RÚV / RÚV

„Gaman að fá að feta í fótspor mömmu og pabba“

23.01.2022 - 17:54
„Virkilega stoltur, auðmjúkur og gífurlega spenntur,“ segir Darri Aronsson um tilfinningarnar sem fylgja því að vera kallaður inn í handboltalandsliðið. Darri fetar með því í fótspor foreldra sinna sem bæði léku fyrir landslið Íslands í handbolta.

Darri fékk símtalið um að hans væri óskað í landsliðshópinn í gær og eftir það gerðust hlutirnir hratt. „Og svo var bara hent í tösku, farið í PCR próf og rifið sig af stað.“ Hann sé virkilega stoltur að vera í hópnum. „Auðmjúkur og gífurlega spenntur. Það er gaman að fá að feta í fótspor mömmu og pabba, og fá tækifæri til að taka þátt og vera hluti af þessu liði,“ segir Darri en faðir hans er Aron Kristjánsson fyrrum landsliðsmaður í handbolta og þjálfari Barein og móðir hans Hulda Bjarnadóttir fyrrum landsliðskona í handbolta.

En bjóst hann við að fá kallið? „Manni dreymdi um það já, en það var ekki endilega eitthvað sem ég hugsaði um. En það var virkilega sætt að fá símtalið, ég get alveg viðurkennt það.“

Darri fær ekki mikinn tíma með liðinu fyrir fyrsta leikinn hans á morgun gegn Króatíu. Hann náði einni æfingu. „Nú þegar maður er kominn í landsliðið þá þýðir ekkert að hika, nú þarf ég bara að mæta með kassann úti og fullur af sjálfstrausti og gera allt mitt til að hjálpa liðinu. Bara halda áfram að gera mitt og hjálpa liðinu í að berjast,“ segir Darri.

Viðtalið við Darra má sjá í spilaranum hér að ofan. Leikur Íslands og Króatíu verður í beinni útsendingu á RÚV kl. 14:30 á morgun. Upphitun hefst í EM stofunni hálftíma fyrr.