Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Armeníuforseti segir af sér vegna eigin áhrifaleysis

23.01.2022 - 23:49
Erlent · Armenía · Asía · Evrópa · Stjórnmál
epa07894910 Armenian President Armen Sarkissian and Serbian President Aleksandar Vucic (not pictured) talk during their meeting in Belgrade, Serbia, 04 October 2019. President Sarkisian is on a three-day state visit to Serbia.  EPA-EFE/KOCA SULEJMANOVIC
 Mynd: epa
Forseti Armeníu tilkynnti á sunnudag að hann kæri sig ekki um að gegna embættinu lengur vegna áhrifa- og valdaleysis og hyggist því segja af sér embætti.

Forsetinn, Armen Sarkissian, hefur verið forseti frá 2018. Hann var miðpunktur stjórnmálakrísu og pólitískra átaka sem brutust út í landinu í kjölfar stríðsátaka Armeníu og nágrannaríkisins Aserbaísjan um yfirráð yfir Nagorno-Karabakh-héraði. Þá tókust þeir Nikol Pahinynian forsætisráðherra á um fjölmörg pólitísk deilumál, þar á meðal brottrekstur yfirhershöfðingja armenska hersins þegar fjöldamótmæli og óeirðir brutust út í landinu að stríðinu loknu.

Í tilkynningu forsetans segir hann að ákvörðunin sé ekki tekin af tilfinningalegum eða persónulegum ástæðum, heldur snúi hún að eðli embættisins.

„Forsetinn hefur ekki þau verkfæri sem hann þarf nauðsynlega að hafa til að geta haft áhrif jafn mikilvæga þætti og stefnumótun í utanríkis- og innanlandsmálum á erfiðum tímum fyrir land og þjóð,“ skrifar forsetinn á heimasíðu sinni. Segist hann vona að breytingar verði gerðar á stjórnarskránni svo að meira valdajafnvægi ríki þegar næsti forseti og ríkisstjórn taka við völdum.

Armenía varð þingbundið lýðveldi í desember 2015, eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þar um. Um leið voru völd forsætisráðherra aukin verulega en völd forsetans skert að sama skapi.