Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Umboðsmaður barna varar við villandi upplýsingum

22.01.2022 - 18:51
Mynd með færslu
 Mynd: Umboðsmaður barna
Umboðsmaður barna varar í fréttatilkynningu við upplýsingablaði sem dreift er í heimahús um þessar mundir sem og við vefsíðu sem sett er fram í nafni „Bólusetningaráðs“.

Í fréttatilkynningunni segir að vefurinn sé ekki á vegum embættis umboðsmanns barna né annarra opinberra aðila.

Upplýsingarnar sem þar koma fram eru sagðar villandi „enda verið að gefa í skyn að embætti umboðsmanns barna standi að baki, sem er alrangt“.

Þá segist embættið ekki vita hverjir standa að baki vefsíðunni og hvergi sé tilgreint hver ábyrgðarmaður sé fyrir henni.

„Að mati umboðsmanns barna er það grafalvarlegt að verið sé að dreifa villandi og röngum upplýsingum í skjóli nafnleyndar sem varða jafn mikilvæg og viðkvæm málefni og um ræðir,“ segir í fréttatilkynningunni.

Á vefsíðunni sem um er að ræða birtist orðsending sem sögð er frá umboðsmanni barna.

Þórgnýr Einar Albertsson