Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Þrjótar eyddu út öllu efni Mannlífs á 5 klukkustundum

21.01.2022 - 13:21
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
„Þetta er ekki ákvörðun sem er tekin í skyndi. Þeir vissu hvað þeir voru að gera og þekktu til. Þarna liggur eitthvað meira að baki,“ segir Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs. Vefurinn hefur legið niðri frá því í nótt eftir að brotist var inn á skrifstofu fjölmiðilsins og tölvubúnaði stolið. Viðkomandi voru síðan að störfum í 5 klukkustundir við að eyða út fréttum og efni af vefnum. „Að mínu mati var þetta þaulskipulagt,“ segir einn af eigendum fyrirtækisins sem hýsir vef Mannlífs.

Atburðarásin hófst reyndar í gærkvöld þegar brotist var inn í bíl Reynis undir Úlfarsfelli og öllu stolið steini léttara, meðal annars lyklum að skrifstofu Mannlífs en líka hundabúri og bakpoka fullum af græjum.  Reynir greindi sjálfur frá innbrotinu í bílinn á Facebook.

Viðkomandi notuðu síðan lyklana til að komast inn á skrifstofu Mannlífs í Ármúla þaðan sem þeir stálu meðal annars turntölvu. Eins og Reynir bendir á í samtali við fréttastofu eru ekki margir sem vita hvar skrifstofur Mannlífs eru.

Með turntölvunni komust þeir inn í vefumsjónarkerfið og hófust handa við að eyða út öllum fréttum.  Vefurinn hefur legið niðri frá því í nótt  með tilheyrandi tjóni en vonir standa til að hægt verði að bjarga sem mestu og koma vefnum aftur upp. 

Vefurinn er nú kominn upp að nýju.

Reynir segir augljóst að þeir sem þarna voru að verki hafi vitað hvað þeir voru að gera. „Þetta er ekki ákvörðun sem er tekin í skyndi og þarna liggur eitthvað meira að baki. Þeir hafa verið að athafna sig í alla nótt.“

Reynir sparar ekki stóru orðin, skiljanlega, og segir þetta mesta óþverraskap sem hann hafi kynnst í starfi sínu sem fjölmiðlamaður. „Þarna eru einhverjir vesalingar gerðir út af einhverjum illa þenkjandi með það að markmiði að gera út af við fjölmiðil. Þetta er högg en við stöndum það vonandi af okkur.“ 

Fréttastofa ræddi við Guðmund Sigurstein Jónsson, einn eiganda Kaktusar, sem er hýsingarfyrirtæki Mannlífs. Hann tekur undir með Reyni að þetta hafi verið þaulskipulagt og að viðkomandi hafi vitað nákvæmlega hvað hann eða þeir voru að gera.

Hann segir að þrjótarnir hafi skilið eftir sig IP-tölur og þeim hafi verið komið áfram til lögreglunnar sem geti rakið þær með aðstoð fjarskiptafyrirtækja.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV