Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Noregur vann nýtt lið Þjóðverja

epa09700866 Kent Robin Tonnesen of Norway (L) in action against Johannes Golla of Germany (R) during the Men's European Handball Championship main round match between Germany and Norway in Bratislava, Slovakia, 21 January 2022.  EPA-EFE/MARTIN DIVISEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Noregur vann nýtt lið Þjóðverja

21.01.2022 - 21:04
Síðasti leikur dagsins í milliriðlakeppni EM í handbolta var viðureign Þýskalands og Noregs. Bæði lið áttu möguleika á að koma sér í baráttuna um sæti í undanúrslitum og þurftu því á sigri að halda í kvöld. Alfreð Gíslason þjálfar lið Þýskalands en liðið hefur lent í miklum skakkaföllum á mótinu sökum kórónuveirunnar. Eftir jafnan fyrri hálfleik sigu Norðmenn fram úr og unnu öruggan sigur.

Það var spenna í leiknum í fyrri hálfleik, Þýskaland byrjaði betur og skoraði tvö fyrstu mörkin en í stöðunni 9-8 komust Norðmenn fyrst yfir. Eftir það má segja að þeir hafi aldrei litið í baksýnisspegilinn heldur jafnt og þétt bætt ofan á þá forystu. Staðan í hálfleik var 14-12 Noregi í vil þrátt fyrir að Johannes Bitter hafi átt góðan leik í marki Þýskalands.

Í seinni hálfleik reyndust Norðmenn svo sterkari aðilinn og komust mest sex mörkum yfir þegar skammt var eftir af leiknum. Þýskaland reyndi hvað það gat að koma sér aftur inn í leikinn en náðu því aldrei og sigurinn því Norðmanna, lokatölur 28-23.

Með sigrinum fara Norðmenn í fjögur stig í riðlinum líkt og Svíar en Þýskaland er enn með tvö stig, fjórum stigum á eftir toppliði Spánverja.