Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Landsnet kynnir nýja leið fyrir Blöndulínu 3

Mynd með færslu
 Mynd: Landsnet
Landsnet hefur nú kynnt nýja leið fyrir Blöndulínu 3, frá Blönduvirkjun til Akureyrar. Þar er meðal annars fallið frá línulögn um Vatnsskarð og umdeilda leið um Efribyggð í Skagafirði sem mjög var gagnrýnd af landeigendum.

Landsnet hélt í gærkvöld rafrænan kynningarfund með landeigendum og verkefnaráði, þar sem kynntur var nýr aðalvalkostur fyrir lagningu Blöndulínu 3. „Kynningu á því hvaða umhverfisþætti, samfélagsþætti og öryggisþættir við skoðuðum til að komast að niðurstöðu um aðalvalkosti,“ segir Hlín Benediktsdóttir, yfirmaður undirbúnings framkvæmda hjá Landsneti.

Fallið frá leiðinni um Vatnsskarð og Efribyggð í Skagafirði

Vorið 2017 tók Landsnet Blöndulínu 3 af þriggja ára framkvæmdaáætlun. Þá hófst um leið nýtt mat á umhverfisáhrifum þar sem fleiri línuleiðir voru teknar inn í myndina. Núna er fallið frá því að fara frá Blöndustöð um Vatnsskarð og þaðan inn eftir Efribyggð í Skagafirði. Þess í stað er farið um Kiðaskarð, talsvert sunnar en um Vatnsskarð, niður í Mælifellsdal í Skagafirði og þaðan þvert yfir í mynni Norðurárdals. Í stað þess að fara um Hörgárdal er nú lagt til að farið verði yfir Öxnadalsheiði og Öxnadal til Akureyrar, að mestu samhliða núverandi loftlínu.

Gamla línan frá Varmahlíð til Akureyrar verði fjarlægð

Þessi leið er átta kílómetrum styttri en sú í gömlu tillögunni. „Og munurinn er sá að við erum þá búin að meta þessa leið til jafnts og getum þá tekið upplýsta ákvörðun um hvaða þættir það eru sem við höfum áhrif á,“ segir Hlín. Gert er ráð fyrir því að Rangárvallalína, núverandi háspennulína frá Varmahlíð til Akureyrar, verði fjarlægð í kjölfar byggingar Blöndulínu 3.

Velja leiðir samkvæmt ábendingum frá landeigendum

Mikil andstaða var hjá landeigendum við fyrri hugmyndir um nýja Blöndulínu. Hlín segir að frá upphafi þeirrar vinnu, sem liggur að baki þessarar tillögu, hafi verið náið samráð við landeigendur og þeir verið upplýstir með reglubundnum hætti. „Við höfum boðað til funda með landeigendum og verkefnaráði, haft opna fundi og boðið landeigendum að fylgjast með hver okkar vinna sé og þeir fengið að taka þátt. Og hluti af þeim leiðum, sem við erum að velja núna, eru leiðir sem við erum að taka inn vegna þess að við höfum fengið ábendingar frá landeigendum.“

Framkvæmdir geti hafist í lok árs 2023

Nú verða drög Landsnets, að skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3, send Skipulagsstofnun til yfirferðar áður en hægt er að hefja opinbera kynningu á umhverfismatinu. Enn er því langt ferli framundan. Hlín segir að í áætlunum Landsnets sé gert ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist í lok árs 2023.