Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Frí frá faraldri með Kanarí

Mynd: Kanarí / RÚV

Frí frá faraldri með Kanarí

21.01.2022 - 11:11

Höfundar

Í kvöld frumsýnir sketsahópurinn Kanarí glænýja grínþætti á RÚV. Hópurinn lofar áhorfendum hvíldarstund frá heimsfaraldrinum. „Við vorum með mjög skýra reglu um að það yrði ekkert um covid.“

Þetta er ekki frumraun hópsins því fyrir nokkrum árum sendi Kanarí frá sér nokkra sketsa í gegnum RÚV núll og stóð fyrir stórskemmtilegri grínsýningu í Þjóðleikhúskjallaranum í vetur. Þættirnir sem nú eru að fara í loftið eru þó stærsta verkefni hópsins til þessa og hafa verið á teikniborðinu í eitt og hálft ár. Í Kanarí eru Eygló Hilmarsdóttir, Guðmundur Einar, Guðmundur Felixson, Máni Arnarson, Pálmi Freyr Hauksson og Steiney Skúladóttir.

Heimsfaraldurinn setti strik í reikninginn og því dróst gerð þáttanna á langinn. „Við vorum að skrifa þetta hér á RÚV, í annarri eða þriðju bylgju covid. Við máttum ekki hitta fólk hér innanhúss, þetta var á tímum 10 manna samkomutakmarkana og það var ekkert að gerast. Við veltum því fyrir okkur hvort þetta væri í alvöru fyndið eða að við værum að missa vitið,“ segir Steiney Skúladóttir í viðtali í Lestinni á Rás 1.

Mynd: Kanarí / RÚV

Áhorfendur hafa fengið forsmekkinn að gríninu á samfélagsmiðlum þar sem nokkrir sketsar hafa þegar verið birtir. „Ég róaðist smá bara við að sjá viðtökurnar við þessum sketsum,“ segir Guðmundur Felixson. „Við erum gjörsamlega aftengd því hvort þetta sé fyndið, þannig að það var gaman að fá loksins viðbrögð.“

„Þetta var áminning um að fólki finnst grín skemmtilegt,“ bætir Steiney við.

Þó nokkuð sé liðið síðan þættirnir voru teknir upp lofa þau tímalausu gríni. „Sem betur fer tókum við þá stefnu sem hópur að gera ekki grín um málefni líðandi stundar. Við erum að reyna að gera sketsa sem virka hvenær sem er.“

Önnur mikilvæg regla var skýrt bann við öllu tengdu faraldrinum. „Meðan við erum í þessu ástandi þá vill maður kannski horfa á afþreyingarefni og gleyma covid. Það var mikilvægt, að geta tekið fólk út úr veruleikanum,“ segir Eygló Hilmarsdóttir.

Kanarí er á dagskrá RÚV á föstudögum klukkan 20:05.

Tengdar fréttir

Leiklist

Frábær kvöldskemmtun með klarinettuleik

Markaðsfræði 101 með KANARÍ