Þetta er ekki frumraun hópsins því fyrir nokkrum árum sendi Kanarí frá sér nokkra sketsa í gegnum RÚV núll og stóð fyrir stórskemmtilegri grínsýningu í Þjóðleikhúskjallaranum í vetur. Þættirnir sem nú eru að fara í loftið eru þó stærsta verkefni hópsins til þessa og hafa verið á teikniborðinu í eitt og hálft ár. Í Kanarí eru Eygló Hilmarsdóttir, Guðmundur Einar, Guðmundur Felixson, Máni Arnarson, Pálmi Freyr Hauksson og Steiney Skúladóttir.
Heimsfaraldurinn setti strik í reikninginn og því dróst gerð þáttanna á langinn. „Við vorum að skrifa þetta hér á RÚV, í annarri eða þriðju bylgju covid. Við máttum ekki hitta fólk hér innanhúss, þetta var á tímum 10 manna samkomutakmarkana og það var ekkert að gerast. Við veltum því fyrir okkur hvort þetta væri í alvöru fyndið eða að við værum að missa vitið,“ segir Steiney Skúladóttir í viðtali í Lestinni á Rás 1.