Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fimm í ferskara lagi á stormasömum föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Atlantic Records - Caprisongs

Fimm í ferskara lagi á stormasömum föstudegi

21.01.2022 - 18:00

Höfundar

Það eru alls konar gular og appelsínugular veðurviðvaranir í gangi út um allt land og þess vegna kjörið að setja eitthvað gott á fóninn. Það er FKA Twigs sem hefur verið aðal þessa vikuna í pressunni en Max Cooper, Kae Tempest ásamt Kevin Abstract, King Gizzard & The Lizard Wizard og DJ Shadow auk fönkarans Curtis Harding telja sig líka eiga erindi við tónlistarunnendur að þessu sinni.

FKA twigs ásamt Rema - Jealousy

Enska rósin Tahliah Debrett Barnett sem kallar sig FKA Twigs hefur átt forsíður helstu tónlistarmiðla í vikunni þökk sé nýju plötunni hennar Caprisongs. Platan sem inniheldur 17 lög fær lofsamlega dóma og þykir af mörgum vera hennar besta og poppaðasta verk eins og sést á veglegum gestalista sem inniheldur meðal annars Weeknd, Jorja Smith og rapparann Rema.


Max Cooper - Everything

Raftónlistarmaðurinn og pródúserinn Max Cooper hefur verið starfandi í rúman áratug og tónlist hans þykir minna á Bonobo sem er víst mallandi á mörgum heimagræjum þessa dagana. Max hefur sent frá sér einar sex plötur og endurhljóðblandað hetjur eins og Hot Chip, Christian Löffler og Sasha. Lagið Everything er titillag hans nýju plötu sem er væntanleg í ár.


Kae Tempest ásamt Kevin Abstract - More Pressure

Enska ljóðskáldið, rithöfundurinn og rapparinn Kae Tempest gaf út fyrsta lagið af væntanlegri plötu sinni The Line Is A Curve fyrir 10 dögum síðan. Lagið er rappað að hætti Tempest en tónlistin er nær tíunda áratugs teknói en hefðbundnum bítum í rappi sem gefur More Pressure ferskan blæ.


King Gizzard & The Lizard Wizard - Black Hot Soup (DJ Shadow Remake)

Það má segja að skrattinn hitti ömmu sína í endurgerð DJ Shadow af lagi ástralana King Gizzard & The Lizard Wizard - Black Hot Soup. Lagið má segja að sé af gamla skólanum og DJ Shadow skratsar þennan kröftuga dansslagara eins og árið sé 1995.


Curtis Harding - Where's The Love

Tónlistarmaðurinn Curtis Harding kemur frá Michigan og spilar blöndu af blús, sálartónlist, rokki og fönki. Lagið Where's The Love er af plötu hans If Words Were Flowers sem kom út í fyrra og er að klifra sig upp á spilunarlista útvarpsstöðva í heimalandinu og víða um Evrópu þessa dagana.


Fimman á Spotify