Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Enginn liggur inni á Akureyri vegna covid

Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - Rúv
Á Sjúkrahúsinu á Akureyri liggur enginn covid-sjúklingur inni og hefur ekki gert í tvær vikur. Aðal áskorunin er að manna stöður sjúkrahússins vegna einangrunar og sóttkvíar starfsfólks. Gjörgæsluhjúkrunarfræðingar frá Sjúkrahúsinu á Akureyri hafa þó undanfarnar vikur fært sig yfir á Landspítalann til að létta undir þar.

Gera ráð fyrir að fleiri starfsmenn detti út

Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri segir að á fjórða tug starfsmanna sjúkrahússins geti ekki mætt til vinnu vegna einangrunar eða sóttkvíar og geri megi ráð fyrir að þeim fjölgi.

„Við höfum því tekið á það ráð að draga eða fresta hluta af valkvæðri starfsemi til að eiga þá starfsfólk til góða til að manna bráðastarfsemina og nauðsynlega starfsemi.“

Ekki hefur þurft að opna covid-göngudeild Sjúkrahússins á Akureyri í nokkrar vikur. Ef með þarf er þó hægt að setja hana upp með stuttum fyrirvara.

Allir hjálpast að

Gjörgæsluhjúkrunarfræðingar frá Sjúkrahúsinu á Akureyri hafa farið til vinnu á Landspítala, nú í janúar þegar hann hefur verið á neyðarstigi. Sigurður segir að möguleiki sé á að starfsfólk frá Akureyri verði við vinnu í Reykjavík þegar þörf krefur, enda séu allir að hjálpast að. 

Smitum í nærsamfélaginu fer sífellt fjölgandi. En Sigurður segir að fólk sé ekki að veikjast í eins miklum mæli. 

„Bæði er þetta í tiltölulega yngri aldurshópum, bæði börn og yngri fullorðnir og síðan virðist fólk ekki eins veikt, sem betur fer. Því ef að við hefðum haft sambærilegar innlagnir hlutfallslega eins og hafa verið í fyrri bylgjum, þá værum við í mjög slæmum málum.“