Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Einar Örn lýsir næstu leikjum úr einangrun á hótelinu

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Einar Örn lýsir næstu leikjum úr einangrun á hótelinu

21.01.2022 - 15:31
Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður á RÚV sem hefur lýst landsleikjum Íslands á EM í handbolta af mikilli innlifun og þekkingu í sjónvarpinu, hefur greinst með COVID-19. Hann er þó hvergi af baki dottinn og ætlar að lýsa næstu þremur leikjum íslenska liðsins úr einangrun á hótelherbergi sínu í Ungverjalandi.

„Nú þarf ég að vera á hóteli í fimm daga, skila tveimur neikvæðum testum og þá gæti ég losnað,“ segir Einar Örn í samtali við fréttastofu. Hann greindist jákvæður eftir hraðpróf í morgun eftir að hafa farið til að fylgjast með æfingu íslenska liðsins, fór síðan í PCR-próf í framhaldinu sem staðfesti að hann væri smitaður af COVID-19.

Einar er ekki fyrsti Íslendingurinn sem greinist með COVID-19 á Evrópumótinu - síður en svo. Íslenska landsliðið mætti með laskað lið til leiks þegar það mætti Dönum í gær þar sem vantaði sex leikmenn vegna smits. Til að bæta gráu ofan á svart greindist sjúkraþjálfari liðsins í morgun. 

Einar ætlar að reyna að lýsa næstu þremur leikjum íslenska liðsins frá hótelherbergi sínu. „Það er alveg hægt að redda því og við ætlum að láta koma með græjuna hingað.“ Flóknara er að taka viðtöl fyrir og eftir leiki en Einar hefur fulla trú á  að fundin verði lausn á því. Fjölmiðlafulltrúi HSÍ geti hlaupið í skarðið sem og tökumaður.

Mótshaldarar hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir hvernig er staðið að sóttvörnum í kringum mótið og víða hafa heyrst raddir um að flauta eigi mótið af. Einar segir krísufundi haldna á hverjum degi en eins og staðan sé í dag verði mótið líklega klárað. 

Næsti leikur Íslands er á morgun gegn Frökkum sem verða án þjálfara síns eftir að sá greindist með COVID-19 í morgun.