Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Ég þarf bara að finna skýringar á þessari mynd“

21.01.2022 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Ég lét taka þetta út þannig að þetta væri ekki að trufla lífið hjá mínu fólki,“ segir lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson sem hefur sætt talsverðri gagnrýni á samfélagsmiðlum í morgun vegna myndar sem birtist á Facebook-síðu hans og virðist sýna Vítalíu Lazarevu ganga á fund lögmanns síns við Suðurlandsbraut. Vitalía sakaði nýverið fimm þjóðþekkta menn um kynferðisofbeldi gegn sér í hlaðvarpsþættinum Eigin konur.

Sigurður hefur nú fjarlægt myndina sem birtist í svokölluðu „story“ á Facebook-síðu hans. „Ég lét taka þetta út þannig að þetta væri ekki að trufla lífið hjá mínu fólki.“  

Sigurður segist þurfa að finna skýringar á þessari mynd og þykir einkennilegt að enginn af vinum hans skyldi hafa tekið eftir henni þrátt fyrir að hún hafi birst í byrjun desember. Það er mánuði áður en Vitalia fór í viðtalið umtalaða.

Sigurður kveðst vera með þúsundir mynda sem hann hafi tekið sjálfur og fengið sendar. „Ég hef ekki hugmynd um af hverju þessi mynd er þarna og ætla að finna út úr því í ró og næði. Svo kemur bara allur sannleikurinn í ljós og hann kann að vera öðruvísi en menn ímynda sér.“ 

Mennirnir fimm sem Vitalia sakaði um að hafa brotið gegn sér hafa ýmist verið leystir frá störfum eða verið sendir í leyfi. 

Sigurður segist ekki vera lögmaður neins þeirra. Hann þurfi bara að skoða málið með myndina en það haldi ekki fyrir honum vöku. „Það er bara eitt sem heldur fyrir mér vöku og það er hvernig menn eru að rústa réttarríkinu.“

Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt myndina er Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata.