Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Brislingur hrygnir við Ísland

21.01.2022 - 08:16
Digital StillCamera
 Mynd: Hans Hillewaert - Wikimedia Commons
Fisktegundin brislingur hrygndi í Ísafjarðardjúpi í fyrra. Fyrst varð vart við tegundina við landið árið 2017, að því er fram kemur í grein í Náttúrufræðingnum og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag. 

Mestar líkur eru taldar á að lirfur tegundarinnar hafi borist til landsins með hafstraumum og þær svo alist upp við landið. Eitthvað af brislingi er veitt við Færeyjar, og eru líkur á að lirfurnar hafi borist þaðan. Hvorki hafa þó egg, lirfur né fullorðnir fiskar fundist á hafsvæðinu milli Íslands og Færeyja, hefur Morgunblaðið eftir Jóni Sólmundssyni, fiskifræðingi á Hafrannsóknastofnun. Þó brislingur hafi fyrst veiðst hér við land árið 2017 svo staðfest sé, segir Jón að líkur séu á að hann hafi komið í færi fyrr. Tegundin þykir nefnilega svipa til ungsíldar.

Brislingur er smávaxinn fiskur af síldaætt. Hann nær kynþroska um tveggja til þriggja ára og er þá um tíu sentímetrar að lengd. Fiskar yfir tíu sentímetrum hafa fundist á nokkrum stöðum við landið að sögn Jóns. Tegundin er aleng við strendur meginlands Evrópu allt suður til Afríku. Hún veiðist yfirleitt á 50 metra dýpi eða grynnra. 

Óvíst er hvort brislingur nær að festa sig í sessi við Íslandsstrendur. Jón segir við Morgunblaðið að hitastig og aðrar umhverfisaðstæður ráði mestu um það.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV