Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vonast til að tafir á afgreiðslu umsókna séu að baki

Verktakar vinna að húsbyggingu á Akureyri
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Að undanförnu hefur hægst nokkuð á afgreiðslu umsókna um endurgreiðslu virðisaukaskatts af viðhaldi fasteigna samkvæmt átakinu Allir vinna. Að hluta má kenna það áhrifum kórónuveirufaraldursins.

Átakinu var komið á fyrri hluta árs 2020 til að hvetja til framkvæmda og draga úr atvinnuleysi í heimsfaraldrinum. Það var framlengt fram á mitt næsta ár í tengslum við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins í desember.

Í skriflegu svari Skattsins við fyrirspurn fréttastofu segir að tekist hafi að mestu að afgreiða umsóknir vegna endurgreiðslu innan tilskilinna tímamarka sem er 30 dagar eftir að fullnægjandi erindi berst.

Mikill fjöldi umsókna, veikindi og áhrif kórónuveirufaraldurins hafi orðið til að hægst hefur á afgreiðslu umsókna sem vonast sé til að úr rætist fyrr en síðar. Einnig hafi byrjunarörðugleikar vegna upptöku á nýju vinnslukerfi tafið afgreiðslu. 

Virðisaukaskattur verður endurgreiddur að fullu vegna vinnu iðnaðar- og verkamanna við nýbyggingar, viðhald og endurbætur íbúðahúsnæðis til 31. ágúst en eftir það miðast endurgreiðslan við 60%.

Full endurgreiðsla fæst einnig til 30. júní vegna frístundahúsnæðis, heimilisaðstoðar og reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis. Alþingi samþykki ekki að framlengja endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna bílaviðgerða.