Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vilja að velferðarnefnd ræði tillögur sóttvarnalæknis

20.01.2022 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, hefur ásamt tíu öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokks lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á sóttvarnalögum. Þar er lagt til að tillögur sóttvarnalæknis verði kynntar velferðarnefnd þingsins áður en þær taki gildi og að ráðherra rökstyðji setningu íþyngjandi takmarkana fyrir þinginu, áður en þær taki gildi.

Samkvæmt frumvarpinu skal ráðherra kynna ákvörðun um setningu reglna í velferðarnefnd Alþingis áður en þær taka gildi eða svo fljótt sem verða megi. 

„Þrátt fyrir að sóttvarnaaðgerðir þurfi vissulega ávallt að vera byggðar á læknisfræðilegu mati og slík sjónarmið vegi óneitanlega þungt þá eru engu að síður önnur atriði sem huga þarf að þegar reglur sem fela í sér miklar langtímafrelsisskerðingar eru settar. Slíkar skerðingar hafa óhjákvæmilega í för með sér margvíslegar félags- og efnahagslegar afleiðingar sem nauðsynlegt er að líta til þegar ákvarðanir um sóttvarnaráðstafanir eru teknar,“ segir í greinargerðinni.

Flutningsmenn telja eðlilegt og í samræmi við lýðræðisleg sjónarmið að ákvarðanir um setningu sóttvarnareglna séu kynntar þinginu á einhvern hátt og framkvæmdavaldinu veitt aðhald við svo veigamiklar ákvarðanir. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV