Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Metfjöldi kórónuveirusmita í Moskvu

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Aldrei hafa fleiri greinst með covid í Moskvu, höfuðborg Rússlands en í gær. Rússar búa sig nú undir nýja bylgju faraldursins þar sem omíkron-afbrigðið verður ráðandi. Smitum á heimsvísu hefur fjölgað mjög frá því omíkron afbrigðisins varð vart.

Rússnesk heilbrigðisyfirvöld greindu frá því í dag að tæplega 39 þúsund ný tilfelli hafi greinst í landinu í gær, þar af á tólfta þúsund í Moskvuborg. Borgin er miðpunktur útbreiðslunnar í landinu sem hefur orðið einna verst úti Evrópuríkja.

Seinasta met í smitfjölda var slegið í júní síðastliðnum meðan delta-afbrigðið var ráðandi í Rússlandi. Tilfellum hefur fjölgað verulega undanfarna daga og búa heilbrigðisyfirvöld sig undir flóðbylgju smita á næstu dögum.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti brýndi landsmenn til að þiggja bólusetningu og láta ekki sýnatöku hjá líða finndist fyrir einkennum. Hann telur aðeins tvær vikur til stefnu áður en holskeflan skellur á.

Framleiðendur bóluefnisins Sputnik V segja það veita kröftuga vörn gegn omíkron-afbrigðinu. Það mat byggir á niðurstöðum rannsóknar Spallanzani sóttvarnastofnunarinnar á Ítalíu.

Rússar eru heldur tregir til að þiggja bólusetningar en aðeins helmingur landsmanna telst fullbólusettur. Fjögur bóluefni hafa markaðsleyfi í Rússlandi. 

Opinberar tölur rússneskra yfirvalda sýna að 324 þúsund Rússar hafi fallið í valinn af völdum COVID-19 frá því faraldurinn skall á sem er það flesta í gjörvallri Evrópu.

Tölfræðistofnunin Rosstat fullyrðir þó að tvöfalt fleiri dauðsföll megi rekja til sjúkdómsins en opinberu tölurnar gefi til kynna. 

Samantekt AFP-fréttaveitunnar sýnir að dagana 13. til 19. janúar greindust næstum 3,1 milljón nýrra kórónuveirutilfella á heimsvísu. Það er 17% fjölgun frá vikunni áðúr og fimmföldun frá því tilkynnt var um tilvist omíkron-afbrigðisins í nóvemberlok.