Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hækkun húsnæðisverð hvergi meiri en á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Hvergi í Evrópu hefur húsnæðisverð hækkað jafn mikið og á Íslandi undanfarinn áratug. Leiguverð hefur ekki hækkað jafn ört en er þó með því hæsta sem gerist í álfunni.

Þetta kemur fram í samantekt Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, sem tekur saman hækkun húsnæðisverðs frá árinu 2010 og fram á þriðja ársfjórðung 2021. Samantektin sýnir að húsnæðisverð í ríkjum Evrópusambandsins hefur hækkað um tæplega 40 prósent á tímabilinu.  Raunar lækkaði húsnæðisverð þar á árunum 2011 til 2015 en síðan þá hefur hækkunin verið skörp.

Hækkun langt umfram meðaltal ESB

Ísland ber höfuð og herðar yfir önnur ríki í samanburði milli einstakra landa. Hér hefur húsnæðisverð hækkað um ríflega 150 prósent, langt umfram meðaltal ESB. Næst Íslandi kemur Eistland með hækkun upp á 140 prósent. Í fjórum öðrum ríkjum hefur húsnæðisverð tvöfaldast, í Ungverjalandi, Lúxemborg, Lettlandi og Austurríki. Hækkunin á Norðurlöndum er á bilinu 30 til 85 prósent, mest í Svíþjóð og Noregi en minnst í Finnlandi.

Eistar leiða í hækkun leiguverðs

Eistland toppar listann þegar litið er til hækkunar leiguverðs. Þar hefur leiguverð hækkað um rúmlega 160 prósent. Á Íslandi mælist hækkunin 70 prósent og er fjórða mesta hækkun í Evrópu. Meðalhækkun í ríkjum ESB er um það bil 15 prósent.