Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fluttu sig til Bolungarvíkur vegna andstöðu á Flateyri

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Andstaða fyrirtækis á Flateyri varð til þess að fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish ákvað að byggja laxasláturhús sitt heldur í Bolungarvík. Bæjarfulltrúi í Ísafjararbæ segir þetta vonbrigði, en vonast til þess að Ísafjarðarbær njóti góðs af annarri starfsemi fyrirtækisins.

Arctic Fish starfrækir laxeldi í Patreksfirði, Tálknafirði og Dýrafirði, auk skrifstofu á Ísafirði. Fyrirtækið hugðist byggja laxasláturhús á Flateyri en skrifaði á gamlársdag undir samning við Bolungarvíkurkaupstað um byggingu á sláturhúsi þar.

Einkum yfirlýst andstaða ákveðins fyrirtækis á Flateyri

Forstjóri Arctic Fish átti fund bæjarráði Ísafjarðarbæjar í síðustu viku og skýrði frá því að ástæðan fyrir þessari ákvörðun væri einkum yfirlýst andstaða ákveðins fyrirtækis á Flateyri við áformin um sláturhús þar. Það hefði getað tafið verkefnið í langan tíma og þann tíma hafi fyrirtækið ekki. Bb.is segir frá þessu í dag.

Ákveðin vonbrigði fyrir sveitarfélagið

Nanný Arna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi á Ísafirði, bað um að málið yrði sett á dagskrá og segir að sér hafi þótt mikilvægt að heyra skýringar forstjórans. „Og einnig að koma því til skila til Arctic Fish að þetta væru náttúrulega ákveðin vonbrigði fyrir sveitarfélagið, þar sem að töluverð undirbúningsvinna hafði farið fram.“   

Töluverð uppbygging Arctic Fish í Ísafjarðarbæ

Laxasláturhúsi í Bolungarvík fylgja tugir starfa, en Nanný vonast engu að síður til þess að Ísafjarðarbær njóti góðs af annarri starfsemi fyrirtækisins. „Og það er náttúrulega töluverð uppbygging Arctic Fish í Ísafjarðarbæ sem má ekki gleyma. Þeir eru með stóra vinnslu í Dýrafirði og aðalskrifstofuna sína hér á Ísafirði. Og þeir eiga þessa lóð á Flateyri og hafa hug á að gera eitthvað við hana. Þannig að við erum svo sem ekkert að tapa baráttunni þó við höfum ekki unnið þessa tilteknu baráttu.“