Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Meiri framkvæmdir á Akureyri

19.01.2022 - 13:29
default
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Á Akureyri er nú mikil uppbygging enda hefur íbúum sjaldan fjölgað jafn hratt þar í bæ. Framkvæmdamagn nálgast það sem var árið 2007 en vonast sviðsstjóri skipulagssviðs bæjarins að tímabilið nú verði lífseigara en síðasta uppgangstímabil.

Íbúar brátt 20 þúsund

Akureyrarbær stendur í miklum framkvæmdum og segir Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar að nú séu meiri framkvæmdir í bænum en verið hafa í langan tíma.

„Það er mjög mikið að gera og mikil eftirspurn eftir lóðum. Svo leiðir eitt af öðru, um leið og það kemur eftirspurn eftir einhverju er komið meira fólk til að sinna. Nú á að fara að byggja tvær heilsugæslustöðvar hérna á Akureyri, norðan megin og sunnan megin. Það er verið að leggja drög að nýju hjúkrunarheimili. Það er stefnt að því að byggja nýja flugstöð.“

Pétur segir að um leið og þjónusta bæjarins sé bætt geri það bæinn ákjósanlegri til búsetu. Íbúafjöldi Akureyrar nálgast hratt 20.000 manna markið. 

Uppbygging verður mest norðan Glerár

Tvö íbúðarhverfi eru í burðarliðnum í norðurhluta bæjarins. Gert er ráð fyrir að uppbygging næstu 10 árin verði að miklu leyti í þeim hluta bæjarins. Búið er að taka fyrstu skóflustungu að Holtahverfi norður og nýlega var óskað eftir tilboðum í hönnun gatna og lagna í svokölluðu Móahverfi.

„Þessi tvö hverfi eru sem sagt um 1300 íbúðir og þá geta búið þar eitthvað í kringum 3000 manns, rúmlega það. Hvað varðar fjölda íbúða í byggingu erum við ekki búin að ná 2007 en við erum í áttina. Við vonum að það verði aðeins lífseigara heldur en það tímabil,“ segir Pétur.

Þétting byggðar hagkvæm

Verið er að skoða byggingu íbúðarhúsnæðis á Oddeyrinni og í miðbænum er nú verið að byggja um 70 íbúðir á Drottningarbrautarreitnum. Aðrar framkvæmdir eru einnig fyrirhugaðar og stefnt er að útvíkkun miðbæjarins með tengingu við höfnina. Nú stendur yfir hugmyndasamkeppni um skipulag hafnarinnar við Torfunef.

Pétur Ingi segir Akureyrarbæ ekki landmikið sveitarfélag þannig séð og þurfi að hugsa langt fram í tímann varðandi byggingarland. „ Við þurfum að hugsa um að nýta núverandi innviði betur. Í staðinn fyrir að búa til fleiri götur til að moka snjó á er hægt að nota þær götur sem fyrir eru. Þannig að þétting byggðar ef hún er gerð á skynsamlegan hátt, þá er hún hagkvæm.“