Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Íslenskir fjárfestar kaupa í Alvotech fyrir milljarða

19.01.2022 - 12:44
Innlent · Alvotech · first north · líftækni · Nasdaq · oaktree · Samruni · Viðskipti
Mynd með færslu
 Mynd: Alvogen
Hlutafjárútboð líftæknifyrirtækisins Alvotech var stækkað um 2,6 milljarða króna vegna mikils áhuga íslenskra fjárfesta. Forsvarsmenn fyrirtækisins stefna á margfalda tekjuaukningu á næstu árum.

Farið var í hlutafjáraukningu í tengslum við fyrirhugaðan samruna Alvotech og bandaríska fyrirtækisins Oaktree Acquistion. Ákveðið var að stækka útboðið vegna umframeftirspurnar íslenskra fjárfesta og er heildarvirði hlutafjárútboðsins nú alls 175 milljónir dollara, eða sem nemur 22 og hálfum milljarði króna. Áætlað heildarvirði sameinaðs fyrirtækis verður tæplega 330 milljarðar króna.

Hlutafjáraukningin skiptir sköpum fyrir Alvotech sem fram til þessa hefur enn ekki skilað hagnaði. Tap áranna 2019 og 2020 nam samtals 230 milljónum dollara en samkvæmt fjárfestakynningu sem birt var fyrir útboðið gera stjórnendur Alvotech ráð fyrir miklum viðsnúningi á næstu árum.

Fyrsta lyf Alvotech er væntanlegt á markað fljótlega. Það heitir AVT02 og er samheitalyf frumlyfsins Humira sem meðal annars er notað við gigt og bólgusjúkdómum. Lyfið hefur verið skráð í Evrópu og Kanada en málaferli við lyfjafyrirtækið Abbvie hafa tafið skráningu lyfsins í Bandaríkjunum.

Áætlaðar tekjur Alvotech í fyrra voru 30 til 60 milljónir dollara en fyrirtækið áætlar að árið 2025 verði þær tekjurnar orðnar 800 milljónir dollara, rúmir hundrað milljarðar króna. Þá verði komin fimm lyf á markað í yfir 60 löndum.

Til stendur að skrá Alvotech á NASDAQ hlutabréfamarkaðinn í Bandaríkjunum á þessu ári auk þess sem hugað er að skráningu á First North markað íslensku kauphallarinnar.

750 manns starfa hjá Alvotech og eru höfuðstöðvar og verksmiðja fyrirtækisins í Vatnsmýri. Önnur verksmiðja er í byggingu í Kína.

Magnús Geir Eyjólfsson