Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Geta uppskorið misjafnlega úr lífeyrissjóðum

19.01.2022 - 21:02
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Fólk með styttri menntun sem fór snemma út á vinnumarkaðinn og vann erfiðisvinnu gæti fengið hlutfallslega minna út úr lífeyrissjóði en það greiddi til hans samanborið við tekjuháan einstakling sem fór í háskólanám og skilaði sér síðar í fasta vinnu. Ástæðan er mismunandi lífslíkur fólks sem geta ráðist af þáttum eins og búsetu, kyni, menntun og tekjum. Þar sem lífeyrissjóðum ber að greiða út eftir reglum sem byggja á meðaltölum sjóðsfélaga geta mismunandi lífslíkur einstaka hópa skekkt stöðuna.

Þorsteinn Sigurður Sveinsson, hagfræðingur hjá Seðlabankanum,  skrifaði grein sem birtist á vef Seðlabankans í gær. Þar fjallar hann um áhrif hækkandi lífaldurs á lífeyrisréttindi fólks. Lífaldur hefur farið hækkandi undanfarin ár en ekki jafnt hjá öllum. Þannig hækkar sá aldur sem háskólamenntaðir geta vænst þess að ná meira en lífslíkur fólks sem lauk námi eftir grunnskóla. 

Ýmsir þættir geta ráðið því að fólk greiði misjafnlega lengi í lífeyrissjóð áður en það fer á ellilífeyri og lifir mislengi eftir að það hefur töku lífeyris. Þættir eins og menntun, búseta, laun og kyn geta til dæmis gefið til kynna að einstaklingur sem greiðir lengur í lífeyrissjóð en jafnaldri hans fái greitt skemur úr sjóðnum vegna þess að þeir lifa misjafnlega lengi. Þá er líklegra að tekjulágur einstaklingur með grunnmenntun borgi lengur í lífeyrissjóð og lifi skemur á ellilífeyri en háskólamenntaður. Karlmenn með grunnskólapróf lifa að meðaltali til áttræðs en háskólamenntaðir karlmenn ná tæplega 84 ára aldri að meðaltali. Konur með grunnskólamenntun ná tæplega 83 ára aldri en háskólamenntaðar konur rúmlega 86 ára aldri.

Þar sem lífeyrissjóðir greiða út lífeyri eftir reglum sem byggja á meðalaldri sjóðfélaga getur komið upp sú staða að ólíkir hópar fá misjafnlega mikið til baka. Þannig getur lítt menntaður láglaunamaður fengið hlutfallslega minna til baka miðað við greiðslur sínar í sjóðinn heldur en launahár einstaklingur með meiri menntun. Þorsteinn sagði þó í grein sinni á vef Seðlabankans og í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að lífeyrissjóðakerfið væri með þætti sem vinna að vissu marki gegn þessu, annars vegar vegna þess að sjóðir byggja mikið á starfstéttum og hins vegar vegna áhrifa af útreikningi á líkum á örorku sem felur í sér leiðréttingu fyrir hluta af því hversu misjafnlega langlífi dreifist innan hvers sjóðs. 

Nokkrir þættir geta skekkt það hversu mikið fólk fær til baka miðað við það sem það hefur greitt til sjóðsins, samkvæmt grein Þorsteins. Meðal annars hversu mikið bilið er í væntanlegum lífaldri sjóðfélaga, hvenær þeir hefja töku lífeyris, hversu stórir hópar innan sjóðanna eru líklegir til að lifa lengi og hvernig tekjur dreifast innan sjóðanna. Þetta getur til dæmis þýtt að heildarlífeyrir þeirra sem lifa skemur skerðist við það eitt að tekjuhærri hópar lifa lengur, því allir fá greitt sama hlutfall miðað við hvað þeir hafa greitt til sjóðsins óháð því hve lengi þeir lifa.

Þorsteinn sagðist í Morgunútvarpinu á Rás 2 ekkert vilja segja um hvaða leiðir væri best að fara, það væri í verkahring stjórnmálamanna. Sjálfur fjallaði hann aðeins um hvernig staðan æri. Hann bendir á það í grein sinni að í Danmörku breyttust reglur um áramót þannig að Danir sem hafa unnið líkamlega erfiða vinnu og fóru ungir á vinnumarkað geta farið fyrr á eftirlaun. Það sé einmitt sá hópur sem geti búist við því að lifa skemur en aðrir. Fólk í þeirri stöðu getur farið allt að þremur árum fyrr á eftirlaun en annars hefði verið, samkvæmt færslu á vef danskra yfirvalda.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV