„Er búin að skipta um skoðun við það að þjást“

Mynd: RÚV / RÚV

„Er búin að skipta um skoðun við það að þjást“

19.01.2022 - 09:57

Höfundar

„Þegar hann fellur frá átta ég mig á því hvað veikindi hans höfðu mikil áhrif á mig. Hann deyr um það leyti sem ég er að útskrifast úr jógakennaranáminu svo það eru engar tilviljanir,“ segir Eva María Jónsdóttir. Faðir hennar lést eftir glímu við fíknisjúkdóm fyrir tveimur árum og þá fór hún að endurmeta lífið og tileinkaði sér kúnstina að staldra við og sleppa tökunum.

Eva María Jónsdóttir dagskrárgerðarkona er útskrifuð úr bókmennta- og miðaldafræði frá Háskóla Íslands. Hún sagði skilið við fjölmiðlana og starfaði um hríð sem vef- og kynningarstjóri Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Í dag iðkar hún og kennir jóga. Hún ræddi við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur um áföllin sem kenndu henni að staldra við, jógafræðin og óhefðbundnar lækningar sem hún nýtir sér frekar en að taka inn lyf sem framleidd eru af lyfjafyrirtækjum.

Tignaði vinnuna og dýrkaði dugnað

Eva hefur haft nóg að gera síðustu áratugi en áttaði sig á því eftir langt tímabil mikillar vinnu að hún væri orðin blind á streituna sem henni fylgdi. „Ég tignaði vinnuna mína og dýrkaði dugnað, fannst ekkert vit í öðru en að vera sístarfandi, svo gæti maður hvílt sig á nóttunni,“ segir hún. Í dag hefur hún allt aðra sýn á lífið. „Streitan fór að breyta lífsgæðum manns og taka það burt sem maður taldi sjálfsagt, að maður byggi við ákveðin lífsgæði og væri heilsuhraustur og glaður í sinni.“

Áttaði sig á því eftir fráfallið hvaða áhrif veikindin höfðu á hana sjálfa

Það hefur gengið á ýmsu í lífi Evu Maríu sem hefur hjálpað henni að móta þessa skoðun. „Eftir að ég hætti hjá RÚV hefur verið rúmur áratugur með áskorunum í persónulega lífinu,“ segir hún. Faðir Evu Maríu, Jón Hjörleifsson, lést árið 2020 og eftir fráfall hans fór hún að endurmeta margt. „Þegar hann fellur frá átta ég mig á því hvað veikindi hans höfðu mikil áhrif á mig. Hann deyr um það leyti sem ég er að útskrifast úr jógakennaranáminu svo það eru engar tilviljanir.“

Eva María er gift Sigurpáli Scheving hjartalækni og samtals eiga þau sjö börn og nýverið fengu þau sér líka hund. Honum hefur sannarlega fylgt mikið fjör á heimilinu en Eva María segir að hann hafi líka kennt þeim margt, „til dæmis að vera ekki með stæla,“ segir hún glettin.

Fóru til Balí þar sem jóga var vinsælli þjónusta en kaffi

Eftir fráfall föður síns fann Eva María hún hefði verið uppspennt í langan tíma. Jógakennaranámið hjálpaði henni að takast á við vandann. „Það var það sem ég þurfti á þessum tíma,“ segir hún. Rétt áður en skall á með heimsfaraldri fór hún ásamt stórum hluta fjölskyldunnar til Balí og það hjálpaði henni að komast niður á jörðina og finna kyrrð. „Þá sáum við aðra lífshætti og urðum fyrir áhrifum,“ segir hún.

Á Íslandi er gjarnan boðið upp á kaffi, nánast hvert sem komið er, en Eva segir að það sé ekki kaffi á boðstólum hvar sem drepið er niður fæti úti á Balí heldur jógatími. Fjölskyldan þáði það. „Við vorum þrjár kynslóðir að ferðast saman og fórum alltaf í jóga þar sem það var í boði. Það var eiginlega á hverjum degi og stundum tvisvar á dag.“ Líðanin fór strax að batna og iðkunin hjálpaði Evu Maríu og fjölskyldunni að losa sig við streitu og áhyggjur. „Þetta færði okkur mjög góða líðan og jafnvægisgeð yfir daginn.“

Margra ára vinna sem skilaði ekki árangri

Faðir Evu Maríu glímdi um árabil við fíkn og viðbrögð hennar við veikindum hans voru að reyna að leysa málin „Við vinnum þetta, vinnum úr þessu, setjum þetta í aðgerðaáætlun, förum eftir henni og þá verður allt gott,“ er hugarfarið sem hún tamdi sér. Þannig stóð hún í margra ára vinnu sem að lokum skilaði ekki árangri. „Hún er mjög lýjandi og tekur mikla orku frá manni.“

„Við getum ekki stjórnað fólki og það kemur alltaf á óvart“

Hún lýsir fíkninni sem aðstandendasjúkdómi þar sem aðstandendur taki oft á sig mikla ábyrgð. Í dag segir hún að til séu betri aðferðir en að ætla sér að laga allt og redda öllu. „Aðrar aðferðir eru æðruleysi og að anda djúpt, nota andardráttinn til að breyta líðan sinni,“ segir hún. Þar kemur jóga einmitt sterkt inn.

„Við getum ekki stjórnað öðru fólki og það kemur okkur alltaf jafnmikið á óvart,“ segir hún. Það sé mikilvægt að sleppa tökunum á hlutum sem maður hefur ekki vald á sjálfur því þá farnist manni betur en þegar ríghaldið er í spennuna.  „Við þurfum að spenna og slaka, svo þurfum við að slaka og gera það reglulega. Það þýðir ekki að vera í spennu í tíu ár og ætla sér svo bara að slaka í ellinni,“ segir hún. „Það veldur bara því að maður verður í fyrsta lagi óhamingjusamur og annars vegar veikur, hvort sem veikindin eru líkamleg eða andleg.“

„Maður skiptir sennilega ekki um skoðun nema maður þjáist aðeins“

Fram að þessu hafði Eva María vanist því að hafa mikið að gera og henni þótti mikilvægt að vera alltaf með marga bolta á lofti, hlaðin verkefnum. „En ég er búin að skipta um skoðun og það gerðist við það að þjást,“ segir hún. „Maður skiptir sennilega ekki um skoðun nema maður þjáist aðeins. Ég hafði alltaf mikið að gera því ég vildi hafa mikið að gera og fannst það eðlilegt.“

Dagarnir voru pakkaðir og hún átti jafnvel erfitt með svefn á nóttunni því hún hafði svo miklar áhyggjur. „Þá var kominn tími til að skoða lífsmynstrið og hvernig maður hugsar hlutina.“

Enn að æfa sig í því að segja ekki alltaf já

Helsta breytingin sem hún gerði meðvitað á lífi sínu varð þegar hún áttaði sig á að hún þyrfti ekki að hlaða svona miklu á lífið. „Njóta þess sem maður er að gera,“ segir hún.

Eva María er enn að æfa sig í að segja ekki já við öllu, því jafnvel þó henni þyki margt spennandi og skemmtilegt passar hún sig að vera ekki í of mörgum verkefnum í einu. „Þessi reynsla, að hafa verið í tíu ár í spennu og bara geta svo ekki sofið, auðvitað breytir það því að maður fer úr þessu gamla mynstri: Já, gerum það! Ég geri bara það sem ég get gert.“

Sækist ekki eftir að taka lyf sem lyfjafyrirtæki framleiða

Þótt eiginmaður Evu Maríu sé læknir leitar hún sjálf sjaldan til akademískt menntaðra lækna, heldur frekar til þeirra sem hún kallar hliðarlækna og sumir skottulækna.

„Þetta eru heildrænar lækningar getum við sagt. Ég sækist ekki eftir að taka lyf sem lyfjafyrirtæki framleiða, ég myndi gera það til að bjarga lífi mínu að sjálfsögðu en þá myndi ég frekar taka inn jurtir sem jurtalæknar ávísa mér,“ segir hún.

Maðurinn hennar amast ekki við því að hún reiði sig heldur á jurtir en lyfin í apótekinu. „Hann segir ekki mikið, horfir á mig og fylgist með mér og finnst þetta áhugavert. Hann hefur ekki neina fordóma fyrir þessu en hann er læknir og læknar læra að nota lyf sem lyfjafyrirtæki framleiða.“

Alþýðuvísindin líka vísindi

Eva segir að lyfjafyrirtækin rannsaki sjálf virku efnin sem komi upprunalega úr náttúrunni og hún kjósi sjálf að sleppa þeim millivegi sem rannsóknarstofur og lyfjafyrirtækin séu. „Grasalæknir getur vitað ýmislegt um virkni grasa þó hann hafi ekki farið í gegnum þennan opinbera prósess sem er ritrýndur og greindur af vísindamönnum. Þetta eru samt vísindi, alþýðuvísindi eru líka vísindi.“

Kemur alltaf eitthvað í ljós þegar maður þagnar og staldrar við

Sem fyrr segir eiga Eva María og Sigurpáll samanlagt sjö börn og þau eru öll að vaxa úr grasi. Hún ákvað að taka sér hálfs árs leyfi frá vinnu til að vera til staðar fyrir þau áður en þau yrðu öll nógu fullorðin til að flytja að heiman og verða sjálfstæðir einstaklingar.

Í þessu fríi öðlaðist hún skilning á ýmsu sem henni hafði áður verið hulið. „Það kemur alltaf eitthvað í ljós þegar maður þagnar og staldrar við.“ Hún fann hversu yfirspennt hún hafði verið lengi. Þá fór hún að iðka og tileinka sér jóga nidra-fræðin sem hún segir upplögð til að vinna gegn þunglyndi, kvíða og svefnleysi.

Fór tólf ára í fyrsta jógatímann

Þó að það hafi tekið tíma fyrir Evu Maríu að byrja að stunda jóga af krafti var hún aðeins tólf ára þegar hún prófaði það í fyrsta sinn. 1983 var eldri maður á Akureyri með heilsuhæli í Varmalandi í Borgarfirði, rifjar hún upp. Sá flutti inn ýmsa erlenda heilsugúrúa og meðal annars jógakennara.

„Það var ekkert nýtt þá, Þórbergur Þórðarson var búinn að þýða nokkrar jógabækur,“ segir Eva María sem á þessum tíma var að heimsækja vinkonu sína sem var á þessum slóðum í vinnu hjá afa sínum. „Við förum tólf ára í jóga og drekkum svo te með kennaranum og töluðum þá litlu ensku sem við kunnum. Þetta fannst okkur alla tíð síðan eðlilegur hlutur að gera, að maður fer í jóga og fær sér svo te,“ segir Eva María kímin sem gerir einmitt mikið af þessu tvennu í dag. Bæði hún og þessi sama vinkona útskrifuðust sem jógakennarar næstum fjórum áratugum síðar svo reynslan hefur greinilega setið í þeim.

Enginn óskar eftir miðaldafræðingi sem þarf að geta hafið störf strax

Sem fyrr segir hætti Eva María í fjölmiðlum og fór í bókmenntafræði. Þegar hún skrifaði BA-ritgerðina sína kviknaði mikill áhugi á fornbókmenntum og Íslendingasögum. Hún skráði sig því í meistaranám í miðaldafræði og segir að aðstandendur hafi gert góðlátlegt grín að þeirri leið sem hún valdi.

„Það hlógu allir í fjölskyldunni að mér; bara, hver hefur óskað eftir miðaldafræðingi, „þarf að geta hafið störf strax?“ Það er enginn,“ segir hún og hlær. En hún fékk starf við hæfi við miðlun hjá Árnastofnun þar sem hún undi sér vel með handritunum.

Heldur námskeið og leiðir jóga og slökun

Nú sinnir Eva fjölbreyttum verkefnum en leggur áherslu á jóga og íhugun. Í desember tók hún þátt í verkefni með Seltjarnarnesbæ þar sem hún leiddi Seltirninga og fleiri áhugasama í gegnum slökun á miðvikudögum.

Hún naut sín svo í jógakennslunni að hún skipulagði annað námskeið í jóga nidra. „Ég hef snúið baki við dugnaðartýpunni og opnað augun fyrir því að það er öllum hollt að hvíla sig og ef ég get hjálpað fólki að hvíla sig þá er það líka að hjálpa sjálfri mér í leiðinni að muna eftir þessu, gefa eftir og slaka og vera ekki allt í öllu alls staðar,“ segir hún.

Langar að gróðursetja tré og ganga sjálf um skóginn

Sjálf stefnir hún að því að snúa sér frá amstri iðnaðarsamfélagsins til náttúrunnar. „Ég sé fyrir mér að ég muni fara út í að planta trjám og mig dreymir um að geta gengið um í skógi sem ég hef plantað. Þetta eru ekki flóknir heldur beisik hlutir sem væri ótrúlega gaman að fá að upplifa í þessu jarðlífi,“ segir hún. Eva María segir að lokum mikilvægt að eiga sér drauma, og að það sé í sjálfu sér mikilvægara en að þeir rætist.

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Evu Maríu Jónsdóttur í Segðu mér á Rás 1. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég er einkabarnið hans, það var erfiðast“

Menningarefni

Fór á mjög slæman stað þegar Þorvaldur lést