Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

42.000 COVID-19 hraðprófum stolið um hábjartan dag

19.01.2022 - 03:29
epa09690101 NSW Premier Dominic Perrottet arrives for a press conference in Sydney, Australia, 17 January 2022. NSW has reported another 63,018 COVID-19 cases and a record 29 deaths, as Australia's medical chief says the current wave of infections may have already peaked in the state.  EPA-EFE/BRENDON THORNE AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Dominic Perrottet, forsætisráðherra Nýja Suður-Wales Mynd: EPA-EFE - AAP
Bíræfinn þjófur komst undan með 42.000 COVID-19 hraðpróf sem hann stal úr vörugeymslu í Sydney í Ástralíu í gær. Talskona Sydney-lögreglunnar segir óþekktan mann hafa gengið inn í vörugeymslu í úthverfinu Mascot síðdegis í gær og „tekið prófin í sína vörslu.“ Hún gaf ekki frekari upplýsingar um hvernig maðurinn fór að við þessa prófatöku, en sagði knáan hóp rannsóknarlögreglumanna rannsaka málið.

Seljast á hátt í 3.000 krónur stykkið

Dominic Perrottet, forsætisráðherra Nýja Suður-Wales, fordæmir ránið, sem framið er á versta tíma, því skortur er á hraðprófum í Ástralíu. Samkvæmt áströlsku neytendasamtökunum eru þau seld á jafnvirði nær 3.000 króna stykkið út úr búð þar sem okrið er mest.

Samtök ástralskra verkalýðsfélaga hótuðu verkfallsaðgerðum fyrr í þessari viku, verði ekki gengið að kröfum þeirra um ókeypis COVID-19 hraðpróf fyrir starfsfólk sem útsett er fyrir smithættu.

Stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að tryggja ekki nægt framboð af hraðprófum en búist er við því að úr rætist síðar í þessum mánuði, þegar von er á allt að 52 milljónum slíkra prófa frá Asíu og Norður-Ameríku. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV