Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Útiloka ekki að hætta við jarðgasleiðsluna

18.01.2022 - 23:06
epa09600820 Acting German Minister of Finance and Social Democratic Party (SPD) top candidate for the federal elections Olaf Scholz speaks during the presentation of the coalition contract in Berlin, Germany, 24 November 2021. Members of German parties Social Democrats (SPD), Free Democrats (FDP ) and Greens were leading talks since German federal elections took place on 26 September 2021. Olaf Scholz will head a three-party coalition with broad plans for Germany's transition to a green economy, under a deal to end 16 years of government led by Angela Merkel.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN
 Mynd: EPA
Þýsk stjórnvöld útiloka ekki að hætta við að taka Nord Stream 2-jarðgasleiðsluna frá Rússlandi í notkun ef svo fer að rússneski herinn ræðst inn í Úkraínu. Þetta sagði Olaf Scholz kanslari eftir fund sinn með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins í dag.

Nord Stream 2-leiðslan liggur frá Ust-Luga  í Rússlandi, nærri landamærunum við Finnland, í gegnum Eystrasaltið og til Greifswald á norðausturströnd Þýskalands. Þangað á hún að flytja rússneskt jarðgas til þess að sjá Evrópu fyrir orku en hún hefur ekki enn verið tekin í notkun.

Vegna ástandsins á landamærum Rússlands og Úkraínu, þá einna helst hernaðaruppbyggingu Rússa sín megin við landamærin, er þetta verkefni hins vegar í hættu. Vesturlönd hafa lýst miklum áhyggjum af því að innrás gæti verið yfirvofandi en Rússar sagt það af og frá.

Stíft fundað

Bretlandsstjórn hefur ákveðið að senda Úkraínumönnum byssur til varnar skriðdrekum og þá heimsóttu utanríkisráðherrar Kanada og Þýskalands bæði Moskvu og Kænugarð til þess að reyna að leysa úr spennunni. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heldur til Kænugarðs á morgun í sömu erindagjörðum.

Olaf Scholz, þýski kanslarinn, sagði í dag að Rússar myndu gjalda það dýrum dómi ef þeir ráðast inn í Úkraínu. Hann útilokaði ekki að hætt yrði við opnun jarðgasleiðslunnar. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, brást við ummælunum í dag, sagði að leiðslan muni auka orkuöryggi Evrópu og gagnrýndi að hún sé notfærð í pólitískum tilgangi.

Þórgnýr Einar Albertsson