Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tólf mál í meðferð hjá teymi kirkjunnar gegn ofbeldi

18.01.2022 - 19:30
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Tólf mál eru í vinnslu hjá teymi þjóðkirkjunnar gegn einelti og kynferðislegri eða kynbundinni áreitni og ofbeldi. Tveir prestar voru nýlega sendir í leyfi vegna ásakana um slíkt. 

Teymi þjóðkirkjunnar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi og meðferð kynferðisbrota innan kirkjunnar, tók til starfa í nóvember 2019. Það er skipað af kirkjuráði og skipað fagfólki, ótengdu kirkjunni. Áður sinnti fagráð kirkjunnar slíkum málum.

Átta þessara tólf mála sem teymið hefur til meðferðar voru formlega tilkynnt í nóvember og desember. Formaður teymisins segir í skriflegu svari til fréttastofu að ætla megi að fjögur málanna séu þess eðlis að þeim verði lokið án aðgerða af þeirra hálfu. Alls fékk teymið tíu tilkynningar á síðasta ári en samtals þrjár árin tvö þar á undan. Í tveimur þessara mála eru ávirðingar um kynferðislegt ofbeldi og þrjár ásakanir má flokka sem kynbundna áreitni. Önnur mál snúa að ásökunum um einelti á vinnustað. Fréttastofu er ókunnugt um hvenær meint brot eiga að hafa átt sér stað. Rétt er að árétta að hægt er að leita til teymisins vegna allra sem starfa innan kirkjunnar, ekki bara presta. 

Teymið hefur í þrígang óskað eftir því að einstaklingur, ýmist þolandi eða gerandi, sé leystur undan starfsskyldum sínum á launum, á meðan teymið kannar viðkomandi mál og hefur Biskupsstofa í öllum tilvikum orðið við þeirri beiðni.

Ritari Biskupsstofu staðfestir að tveir prestar hafi verið settir í leyfi vegna ásakana en vill ekki tjá sig um málið að öðru leyti. Samkvæmt heimildum fréttastofu fóru báðir prestarnir í leyfi í desember. 

Rétt er að taka fram vegna fréttar í 19-fréttum sjónvarps vegna mála sem eru til meðferðar hjá teymi þjóðkirkjunnar í málefnum kynferðisofbeldis, áreitni og eineltis að myndir sem birtar voru með fréttinni tengjast þessum málum ekki beint.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV