Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sonur Kings hvetur til samþykkis nýrra kosningalaga

epa09691682 Martin Luther King III delivers remarks during the MLK Day press conference at Union Station in Washington, DC, USA, 17 January 2022. Speaker after speaker called on the Senate to pass voting rights legislation this week.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sonur og nafni mannréttindafrömuðarins Martins Luther King yngri ávarpaði fjöldagöngu í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, í dag þar sem hann hvatti Bandaríkjaþing til að samþykkja frumvarp til breytinga á kosningalögum.

Martin Luther King III sagði í ræðu sinni að mörg ríki hefðu komið sér upp reglum sem torvelduðu kosningaþátttöku. Tilgangur göngunnar var að hvetja til stuðnings við frumvarpið, sem í daglegu tali er nefnt kosningafrelsislögin.

Það er nú til umfjöllunar í öldungadeild Bandaríkjaþings eftir að það var samþykkt í fulltrúadeildinni í síðustu viku. AFP-fréttaveitan hefur eftir Wendy Hamilton, stjórnmálamanni í Washington að hún telji að kosningaréttur eigi undir högg að sækja í Bandaríkjunum. 

Nancy Pelosi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings ávarpaði samkomuna og það gerðu einnig þingmenn á borð við Terri Sewell og Joyce Beatty.  Dóttir Kings, Bernice og Yolanda Renee King barnabarn hans tóku einnig til máls.

Enn er á brattann að sækja fyrir Joe Biden sem leggur hart að tveimur þingmönnum Demókrata að samþykkja frávik frá reglum um atkvæðagreiðslur í öldungadeildinni.

Með því yrði fallið frá þeirri almennu reglu að sextíu af hundraði atkvæða þurfi til að lög öðlist staðfestingu. Göngumenn bergmáluðu orð Marins Luther King frá því fyrir meira en sjötíu árum varðandi kröfu um að kosningaréttur yrði tryggður tafarlaust. 

Kamala Harris varaforseti hvetur öldungadeildarþingmenn til að samþykkja kosningalagafrumvörpin til heiðurs Martin Luther King sem hún segir hafa barist fyrir grundvallarréttindum allra manna, þeirra á meðal kosningaréttinum.