Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fjórir af sex bæjarstjórum höfuðborgasvæðisins hætta

Mynd: RÚV / RÚV
Fjórir bæjarstjórar af sex stóru sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins ætla ekki að gefa kost á sér til endurkjörs í sveitarstjórnarkosningum í vor. Bæjarstjórinn í Kópavogi segist ekki getað lofað því að hann sé hættur í pólitík þó hann ætli ekki að bjóða sig fram í sveitarfélaginu að nýju.

Landsmenn ganga til sveitarstjórnarkosninga eftir um fjóra mánuði og margir sitjandi fulltrúar gera nú upp við sig hvort að þeir gefi kost á sér til endurkjörs.

Þegar er ljóst að það verða nokkrar breytingar í bæjarstjórastólum hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Fjórir þeirra ætla ekki að gefa kost á sér. Það eru Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Öll hafa þau setið í bæjarstjórastól í meira en áratug. Ármann tilkynnti um ákvörðun sína í gær en hann hefur setið í bæjarstjórn Kópavogs í nærri aldarfjórðung. „Ég er nú búinn að vera í þessum bransa í 25 ár, þannig þetta er nú að verða ansi gott,“ segir Ármann.

Var þetta erfið ákvörðun? „Já, ég verð að viðurkenna það. Ég var lengi að komast að þessari niðurstöðu. Ég hafði alltaf litið á það sem svo að ég myndi halda áfram en svo þegar áramótin gengu í garð þá þarf maður að fara í dýptina í þessari hugsun. Og þetta var niðurstaðan.“

Ármann segist ekki vera búinn að ákveða hvað tekur við. Ertu hættur í pólitík? „Nei, ég er að segja að ég ætla ekki að bjóða mig fram. Hvenær hættir maður í pólitík. Það er alltaf spurningin. Ég ætla ekki að gefa neitt slíkt loforð um að ég sé að hætta.“

En kemur til greina að þú bjóðir þig fram fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík? „Nei, það hefur enginn komið að máli við mig og beðið mig um það. Hins vegar gæti ég tekið til í rekstrinum þar, fyrst þú spyrð að þessu.“

Af sex stóru sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins ætla tvö að bjóða sig fram til endurkjörs. Það eru Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði. 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV