Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Tryggja þarf að raforka fari raunverulega í orkuskiptin

17.01.2022 - 19:26
Mynd: Kristinn Þeyr / RÚV
Orkumálastjóri segir að tryggja verði að framtíðar raforka fari raunverulega í orkuskipti. Nú fái hæstbjóðandi raforkuna en tryggja þarf að almenningur fái notið hennar og til þess þurfi að breyta regluverkinu.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt að það þurfi að virkja og auka rafmagnsframleiðslu um 50 prósent en Landvernd kallar eftir betri nýtingu á þeirri raforku sem þegar er framleidd.

Orkumálastjóri segir að blöndu þurfi af hvoru tveggja, til að mæta fyrirhuguðum orkuskiptum. Mikilvægast sé að tryggja raforku til almennings, til dæmis til þeirra sem búa á svokölluðum köldum svæðum. „Ekki síst þegar við búum við tíma þar sem eftirspurn eftir grænu orkunni okkar hefur aldrei verið meiri og í því samhengi þurfum við að passa að þó að orkan okkar sé endurnýtanleg að þá er hún ekki óendanleg,“ segir Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri.

Halla Hrund minnir á að samkeppnin um orkuna sé mikil og þar má nefna námugröft eftir rafmynt. „Það eru auðvitað alls konar leikendur, iðnaður, gagnaver, það er námugröfur og alls konar nýr iðnaður. Þannig að kaupendahópurinn er ákaflega fjölbreyttur. Þannig að við skulum gera ráð fyrir því að eftirspurn eftir grænni orku komi bara til með að aukast.“

Hún segir mikilvægast að huga að því að laus raforka, framleidd núna eða í framtíðinni rati í orkuskiptin. „Eins og staðan er núna er það ekki sjálfgefið. Við erum í einfaldlega, í raun og veru, með kerfi þar sem að hæstbjóðandi orkunnar er sá sem nýtur hennar og það er ekki endilega fiskimjölsverksmiðjan sem hefur farið í rafvæðingu eða gróðurhús á Suðurlandi eða aðilar sem við viljum sjá að eru að nýta grænu orkuna okkar,“ segir Halla Hrund.

Halla bindur vonir við vinnu sem farin sé af stað um raforkuöryggi og vinnslu grænbókar um stöðu raforkumála. „Það skiptir miklu máli að við horfum gagnrýnum augum á lagaumhverfið og pössum upp á að orkan rati í orkuskiptin aftur, svo að markmið stjórnvalda sem eru mjög metnaðarfull geti náðst.“