Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Tímaspursmál hvenær einhver fer með þessu flóði“

17.01.2022 - 08:24
Mynd með færslu
Súðavíkurhlíð. Mynd úr safni. Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavíkurhreppi, segir að lokanir á Súðavíkurhlíð vegna snjóflóða og snjóflóðahættu hafi mikil áhrif á íbúa og sömuleiðis á aðra, bæði varðandi atvinnusókn og búsetu. 25 manns á norðurleið þurftu að gista í Súðavík í nótt vegna lokunarinnar. Bragi segir alltaf viðvarandi hættu á hlíðinni og Súðvíkingar vilji jarðgöng sem fyrst. „Það er tímaspursmál hvenær einhver fer með þessu flóði út, og það er ekki eitthvað sem við viljum bíða eftir,“ segir Bragi.

Ófært er milli helstu þéttbýliskjarna á norðanverðum Vestfjörðum en bæði Súðavíkurhlíð, milli Súðavíkur og Ísafjarðar, og Eyrarhlíð, milli Ísafjarðar og Hnífsdals, var lokað í gærkvöld vegna snjóflóðahættu. Til stóð að loka veginum um Súðavíkurhlíð klukkan tíu í gærkvöld en honum var lokað fyrr eftir að snjóflóð féllu á veginn. 

Í kvöld hlýnar og spáð er talsverðri rigningu við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Því má búast við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum sem valda aukinni hættu á flóðum og skriðuföllum. 

Um 25 manns á norðurleið í gærkvöld þurftu að gista í Súðavík vegna lokunarinnar. „Þetta er svolítið óheppilegt svona ofan í 10 manna samkomutakmarkanir að fá 25 manns í þorpið. Við erum ekkert sérstaklega undirbúin undir svona þó við höfum verið með einhverja aðstöðu. En það er þá bara íþróttahúsið og opna allar geymslur sem hægt er að setja bedda í og ræsa út mannskap, og það var gert í gærkvöldi,“ segir Bragi. 

Hann segir að janúarmánuður sé Súðvíkingum alltaf erfiður, en rúmur aldarfjórðungur er síðan mannskætt snjóflóð féll á bæinn. Jarðgöng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar eru á áætlun en ekki tímasett, og Bragi segir að Vestfirðingar geti ekki beðið í mörg ár, eða jafnvel áratugi eftir göngum. „Ég veit það bara að þetta hefur áhrif á fólk, bæði varðandi atvinnusókn og búsetu. Það er alltaf þessi viðvarandi hætta á hlíðinni, þó það sé ekki endilega snjór og snjóflóð þá er það grjót, ef því er að skipta og þetta er bara atriði sem maður er að reyna að tala um hérna fyrir frekar daufum eyrum, hvort sem er í samgöngunefnd hérna á Vestfjörðum og heima í héraði, það virðast ekki margir hafa mikinn áhuga á þessu, þetta virðist varða okkur bara hérna í Súðavík þó þetta sé þjóðleið en þetta er algjörlega óviðunandi ástand að það sé alltaf hægt að búast við því með einhverjum klukkutíma fyrirvara að hlíðinni sé lokað, burt sér frá hættunni. Þannig að þetta er orðið svolítið þreytt, þetta hefur margoft verið tvísýnt og ég veit það ekki, það er tímaspursmál hvenær einhver fer með þessu flóði út, og það er ekki eitthvað sem við viljum bíða eftir,“ segir Bragi.