Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Sögulega lítið af húsnæði til sölu á höfuðborgarsvæðinu

Íbúðir í Reykjavík með Úlfarsfell í bakgrunni.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Fjöldi einbýlishúsa og fjölbýlishúsaíbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu er í sögulegu lágmarki. Fyrstu vikuna í janúar voru 487 íbúðir til sölu sem er rúmlega 20% minna en var um það bil mánuði fyrr. Hlutfall óverðtryggðra lána við íbúðarkaup fer vaxandi.

Mjög hefur dregið úr úrvali minni íbúða til sölu en yfir helmingur íbúða á markaðnum er fjögurra herbergja eða stærri. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Þar segir að í maí árið 2020 hafi um 2.200 íbúðir verið til sölu. Kaupsamningum um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu fækkaði um sautján af hundraði í október og nóvember 2021 samanborið við árið áður.

Met voru slegin í fjölda samninga í nágrannasveitarfélögunum í desember þegar þeir voru 200 talsins.

Met var einnig slegið á landsbyggðinni þar sem 193 kaupsamningar voru gerðir í jólamánuðinum. Einnig seldist hátt hlutfall íbúða hærra verði en ásett en meðalverð á höfuðborgarsvæðinu var tæpar 67 milljónir króna í nóvember.

Meðalkaupverð íbúða hefur hækkað um 15,1% prósent frá því árið 2020 en hlutfall þeirra sem velja óverðtryggð lán við íbúðarkaup hélt áfram að aukast í nóvember eða upp í tæp 53%.

Fólk á húsaleigumarkaði greiðir að meðaltali 205 þúsund krónur mánaðarlega á höfuðborgarsvæðinu, 170 þúsund í nágrenni höfuðborgarinnar og 145 þúsund á landsbyggðinni.