„Nánast öll dauðaslys barna voru úti á landi“

Mynd: Samsett / RÚV/Vesturport

„Nánast öll dauðaslys barna voru úti á landi“

17.01.2022 - 17:11

Höfundar

„Hvað er þessi kona að sunnan að gera?“ spurðu margir sig þegar Herdís Storgaard hjúkrunarfræðingur fór um landið árið 1991 með vitundarvakningu um öryggi barna og til að mæla gegn því að þau stunduðu erfiðisvinnu. Hún ræðir þetta í tilefni af álitamáli sem kom upp í nýjasta þætti af Verbúðinni, um það hvort börn ættu að vinna í slorinu.

Fjórði þáttur Verbúðarinnar, Vestfjarðarnornin, var sýndur á skjáum landsmanna í gær og spennan var sannarlega í hámarki. Atli Már Steinarsson fór yfir atburði þáttarins strax eftir þátt, þar sem hann ræddi líka bakgrunnssögu þess tíma sem þar er settur á svið og við fólkið á bak við tjöldin, í hlaðvarpsþættinum Með Verbúðina á heilanum.

Það dró sannarlega til tíðinda í þættinum, sem hefst á því að Harpa og Grímur eru kölluð á fund hjá skólastjóra vegna hegðunarvandamála Sæunnar dóttur Gríms, en jafnframt til að ræða þá staðreynd að börnin kölluð til vinnu í fiskvinnslunni á skóladegi. Harpa tekur síður en svo vel í athugasemdir skólastjórans en Grímur reynir að róa málin. Margt fleira verður til þess að láta hárin rísa og flestum var brugðið yfir lokamínútum þáttarins.

Börnum undir fimmtán ára bannað að vinna þung störf

Atli ræddi að þessu sinni við Herdísi Storgard hjúkrunarfræðing og forstöðukonu hjá Miðstöð slysavarna barna, þar sem hún fræðir foreldra um öryggi barna. Hún starfar líka sem ráðgjafi innanlands og utan um öryggi barna í víðtækum skilningi. 

Herdís fór í þættinum yfir sögu Íslands varðandi börn og vinnu. Þar kom ýmislegt áhugavert fram. Herdís hefur starfað í slysavörnum frá árinu 1991 og segir að það hafi orðið mikil viðhorfsbreyting á þessum tíma sem liðinn er síðan.

Árið 1980 var samþykkt vinnuverndarlöggjöf á Íslandi en Herdís segir að þar hafi  ekki verið fjallað mikið um öryggi barna. Á því varð breyting síðar. Á árunum 1995-1996 voru innleiddar kröfur á vinnustöðum fyrir börn og þá hafi börnum verið að bannað að vinna annað en mjög létt störf. „Í þessari túlkun telst fimmtán ára vera barn í vissum skilningi, og þá er talað um hvað þú mátt gera og það eru mjög létt störf,“ segir Herdís.

Barnagæsla ekki létt starf

Ekki var einhugur um hvaða störf teldust nógu létt og Herdís segir að enn gæti ákveðins misskilning um það. „Eitt af því sem fólk áttar sig ekki á að sé ekki létt starf er barnagæsla,“ segir hún. Enn dúkki upp auglýsingar þar sem börn bjóði fram starfskrafta sína í barnapössun með meðfylgjandi upplýsingum um að þau hafi lokið námskeiði hjá Rauða Krossinum, sem áður kallaðist barnfóstrunámskeið.

Herdís var á meðal þeirra sem beittu sér á sínum tíma fyrir því að nafninu væri breytt, „svo foreldrar fengju ekki misvísandi skilaboð um að hafi barn sótt um þetta námskeið, sé það útskrifuð barnapía,“ segir hún. Foreldrar átti sig ekki á því að séu börnin sem taka að sér barnapíuhlutverkið yngra en fimmtán ára bera þeir sjálfir ábyrgð á því sem gæti komið fyrir. Starfinu fylgi líkamleg og andleg áreynsla sem henti enda ungum börnum.

„Svona hefur þetta alltaf verið“

Í Verbúðinni kom skýrt fram að „svona hefur þetta alltaf verið,“ væri næg röksemdafærsla til að réttlæta það að börnin væru sótt í skólann til að vinna vinnu sem ekki telst hættulaus eða auðveld, í fiskvinnslunni.

Herdís segir að aðstæðurnar í plássunum á þessum tíma hafi gjarnan verið slíkar að allir hafi þurft að taka þátt, svo hægt væri að vinna allan fiskinn. Þannig voru samfélögin gjarnan byggð upp og ekki mikill vilji hjá öllum til að breyta fyrirkomulaginu.

„Hvað er þessi kona að sunnan að gera?“

Herdís Hún hóf störf hjá Slysavarnafélagi Íslands 1991, sem var veitt fé af hálfu Jóhönnu Sigurðardóttur, sem vildi gera skurk í þeim málaflokki. Herdís var ráðin til félagsins og til stóð að koma af stað vitundarvakningu. Í þeirri herferð mætti hún gjarnan fordómum og fann glögglega að margir vildu ekki að hún þrýsti á breytingar.

„Ég kem úr Reykjavík og fer hringinn í kringum landið, á hvern einasta stað,“ rifjar Herdís upp. Viðtökurnar voru afar misjafnar. Mörgum leist ekkert á þessa forræðishyggju. „Þeir sem höfðu lent í einhverju hræðilegu með börn sín og kannski misst þau, þau gáfu mér hljómgrunn en hinir bara: Hvað er þessi kona að sunnan að gera? Hún þekkir ekkert hlutina eins og þeir eru hjá okkur og þetta er allt agalegra í Reykjavík,“ segir Herdís um viðbrögðin.

Nánast öll dauðaslys barna úti á landi

Þá hafi því verið haldið fram á ýmsum fundum að Herdís mætti líta sér nær því það væri töluvert meira um slys í borginni. Herdís ákvað að skoða málið. „Ég fór í það að rannsaka slys og komst að því að á þessum tíma voru nánast öll dauðaslys barna úti á landi, ekki í Reykjavík,“ segir hún.

Næst þegar Herdís fór í svipaða hringferð var hún með tölfræðina svarta á hvítu. Hún hafði haft samband við heilsugæslur víðs vegar um landið og bar tölfræði um slösuð börn saman við sömu tölur frá höfuðborgarsvæðinu. „Það var ótrúlegt að horfa á þetta því það var nákvæmlega eins og úti á landi, nema eini munurinn var að dauðaslysin voru miklu fleiri þar.“

Börn fengu traktorinn yfir sig og slösuðust eða létust

Sjálf starfaði Herdís um hríð á bráðamóttöku og þekkir það að fá slösuð í sína umsjá. Hún segir að börn, sem enn hafi ekki verið komin með nægan framheilaþroska, hafi slasað sig illa í aðstæðum þar sem þau voru ekki fær um að meta hættuna. „Framheili fólks er ekki þroskaður fyrr en í kringum svona átján til tuttugu og fimm ára,“ segir Herdís.

Drifskaftsslys hafi á þeim tíma gjarnan orðið í sveitum þegar yngri börn fengu að vera á traktorum á engjunum. Jafnvel börn yngri en tólf ára, sem höfðu þá enn ekki þróað með sér hliðarsýn, sem olli því að þau sáu ekki til hliðar og þar af leiðandi ekki skurðinn eða misfellurnar. Þegar þau hafi keyrt ofan skurði hafi traktornum oftar en ekki hvolft yfir þau. Sum hafi látist en önnur stórslasast.

„Engin æðri máttarvöld láta okkur detta í hálkunni“

Á þessum tíma segir Herdís einnig að fólk hafi reitt sig mikið á örlagatrú og talið að örlögin réðu því hver yrði fyrir slysi og hvenær. Þá hafi fólk litið svo á að það gerðist sem gerðist og ekkert væri hægt að gera til að breyta því. Herdís segir það af og frá. „Þegar slys eru skoðuð geturðu séð nákvæmlega hvað fór úrskeiðis, hvað orsakaði slysið og hver er ábyrgur,“ segir hún. En það tók tíma að breyta þessu viðhorfi.

Áður fyrr þegar Herdís kenndi foreldrum um slysavarnir þurfti hún að útskýra hvað felst í hugtakinu. Í dag hefur það breyst. „Fólk veit að þetta er ekki tilviljun. Það eru engin æðri máttarvöld sem ætluðu að láta okkur detta í hálkunni. Þetta er spurning um að vera ekki í réttum skóm þegar það er frost og klaki úti,“ segir Herdís.

Aldamótakynslóðin kölluð Jesúbörnin

Herdís er þó ekki á þeirri skoðun að það eigi alls ekki að leyfa börnum yngri en fimmtán ára að vinna. Hún var sjálf í unglingavinnu og lærði mikið af því, eins og að mæta stundvíslega og vinna með öðrum. Í kjölfar reglugerðarinnar 1995-1996 hafi örlað á nokkurri uppgjöf í þjóðfélaginu yfir því að börn mættu ekki lengur vinna. Þegar mikilvægast hefði verið að hugsa út fyrir kassann og velta því heldur fyrir sér hvers lags störf henti börnum. „Það flæddi undan þessu og það er synd, því krakkar höfðu gott af þessu,“ segir Herdís.

Herdís segir að stundum hafi verið talað um aldamótakynslóðina sem „Jesúbörnin“, sem finnist þau geta gengið á vatni, því þeim hafi verið pakkað inn í bómull. Herdís segir það afar ranga nálgun enda sé þetta samfélaginu að kenna, alls ekki börnunum.

Hún segir að í dag verði til önnur vandamál sem ekki þekktust áður eins og að börn hreyfi sig lítið og séu of mikið að horfa á skjáinn. Þá þurfi að finna leiðir til að virkja þau. „Það vilja ekkert endilega allir krakkar fara í íþróttir þó það sé mikið af tómstundastarfi í boði. Stundum er annað sem þau finna sig betur í svo við þurfum að huga að, og hlúa betur að ungviðinu okkar hvað þetta varðar,“ segir hún að lokum.

Hér er hægt að hlýða á Með Verbúðina á heilanum.

Verbúðin er svo aðgengileg hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Á sundskýlunni í heimspressunni

Sjónvarp

„Áskorunin var klárlega í því að Sveppi missti höndina“