Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Minni alvarleiki omíkron gæti leitt til léttari aðgerða

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Sóttvarnalæknir segir þróun innlagna á Landspítalann næstu daga geta leitt til að létt verði á sóttvarnaaðgerðum. Skoðun á alvarleika veikinda vegna omíkron stendur yfir í samvinnu við Landspítalann. Gjörgæslusjúklingum fjölgar ekki þrátt fyrir að mikinn fjölda smita í samfélaginu.

1080 greindust með covid innanlands í gær, 17,5 prósent af þeim sýnum sem greind voru.  54 prósent voru í sóttkví. Þá greindust 114 á landamærunum, rétt rúm tíu prósent af þeim sýnum sem tekin voru. Heildarfjöldi smita var því nærri 1200 í gær. Nærri 23 þúsund manns eru í sóttkví eða einangrun.  Fjöldi sjúklinga á Landspítalanum með COVID hefur haldist óbreyttur um helgina og eru 45 inniliggjandi, sjö eru á gjörgæslu og af þeim eru tveir í öndunarvél.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að minni alvarleiki veikinda af völdum omíkron geti orðið til þess fyrr verði létt á aðgerðum. „Við erum bara að skoða það með Landspítalanum hvernig alvarleiki smitanna er og það mun vonandi skýrast alveg á næstunni. Við erum í þessum sporum að skoða málin og ég skynja það og skil mjög vel að fólk er orðið óþreygjufullt eftir tilslökunum. Vonandi erum við að sjá minna alvarleg veikindi af þessu omíkron afbrigði og mér sýnist það vera þannig og þá getum við fært rök fyrir því að fara í einhverjar tilslakanir og það er það sem við öll viljum og stefnum að,“ segir Þórólfur.

Þórólfur svarar gagnrýni kráareigenda um að það skjóti skökku við að loka krám þegar að flest smit verði í skólum, á þá leið að börn veikist síður en fullorðnir. Eins segir hann eðli starfseminnar hafa sitt að segja. „Börn verða minna veik, við vitum það en þau geta orðið alvarlega veik og ég held það sé mikilvægara að halda skólunum opnum heldur en að fólk geti farið á pöbbinn. Það er líka það sem stjórnvöld hafa bent á reyna að halda skólunum eins ótrufluðum og mögulegt er,“ segir Þórólfur.