Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Áskoranir fyrir framhaldskóla

Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Líkt og aðrar skólastofnanir hafa framhaldsskólar þurft að takast við þær áskoranir sem faraldurinn hefur í för með sér. Skólastjórnendur reyna með öllum ráðum að lágmarka áhrif á skólagöngu nemenda þrátt fyrir að stór hluti þeirra lendi í fjöldatakmörkunum, sóttkví og einangrun. Í Verkmenntaskólanum á Akureyri hefur verið ákveðið að hafa enga lokaprófatörn í lok annarinnar.

Engin lokapróf

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmentaskólans á Akureyri segir að ákvörðun hafi veirð tekin nú byrjun annar að kennarar meti námsframlag nemenda jafnt og þétt yfir alla vorönnina. „Við tókum þá ákvörðun að til þess að minnka bæði mögulegt álag á nemendur vegna þess að þeir eru kannski að detta einu sinni, tvisvar, þrisvar yfir önnina í sóttkví eða einangrun og ef þau sjá lokapróf sem einhverja ógn eða streituvald þá ákváðum við að fara algjörlega yfir í símat.“

Nemendur og kennarar Verkmenntaskólans eru ánægðir með að geta mætt í skólann í byrjun annar og þurfa ekki að byrja hana í lokunum. Þau séu þó betur undir slíkt búin en fyrir tveimur árum segir skólameistari. 

„Það er orðin gríðarlega aukin þekking hjá kennurum á því hvernig hægt er að nota tæknina í kennslu.“

Erfitt að læra hárgreiðslu í fjarnámi

Það hentar nemendum þó misvel að nýta sér tæknina við námið og segir Kormákur Rögnvaldsson, nemi við hárgreiðslu í VMA að sem betur fer hafi hans bekkur ekki þurft að stunda sitt nám í fjarmámi. „Við óttumst það þó mjög mikið að það muni gerast af því það er mjög erfitt að vera í verknámi í fjarnámi.“

Anna Birta Þórðardóttir er einnig að læra hárgreiðslu við Verkmenntaskólann. „Það er munur að þurfa að fylgja takmörkunum og vera með grímu í öllum tímum og sérstaklega í verknámi. Skólinn hefur staðið sig ótrúlega vel til að halda skólakerfinu sem eðlilegustu þrátt fyrir allt.“

Brottfall virðist ekki hafa aukist

Þrátt fyrir álagið sem faraldurinn veldur hefur brottfall nemenda ekki verið áberandi meira en á öðrum tímum segir Sigríður Huld, skólameistari.

„Það er svona í hærri kantinum. En það er ekkert mikið meira en við höfum séð áður. En maður veit ekki hvernig þessi önn mun fara.“