Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Með orkusparnaði þurfi ekki að virkja 50% meira

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Ekki er nauðsynlegt að virkja fimmtíu prósentum meira en nú til að ljúka orkuskiptum. Þetta er mat framkvæmdastjóra Landverndar sem andmælir virkjunaráformum Landsvirkjunar. Þá verði fólk að sætta sig við færri utanlandsferðir.

Til þess að ná markmiði ríkisstjórnarinnar um full orkuskipti í samgöngum á landi, í flugi og á sjó þyrfti að virkja um fimmtíu prósentum meiri orku en nú er aflað. Þetta kom fram í máli forstjóra Landsvirkjunar í gær. 

„Ég er ekki sammála þessu. Ekki nema ef sýnin okkar er að við ætlum ekki að grípa til neinna viðbótaraðgerða, ekki leggja neitt á okkur og ekki gera neinar breytingar. Ef við hins vegar reynum allt sem við getum, til þess að vernda íslenska náttúru og hafa langtímahagsmuni í huga, þá getum við dregið verulega úr þessu. Þá er ég að tala um að við förum í alvöru aðgerðir sem spara orku, eins og nýta fjölbreyttan ferðamála, strandsiglingar til vöruflutninga, eins og byggja núllorkubyggingar, nýta varmadælur og förum í alvöru aðgerðir í orkunýtni, til dæmis að nýta glatvarma frá stórðiðjuverum. Í dag er 80% af orkunni sem er framleidd, hún fer beint til stóriðjunnar. Það er ekki skynsamleg forgangsröðun,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.

Mikla orku þarf til að framleiða rafeldsneyti sem forstjóri Landsvirkjunar telur að þurfi, til þess að hætta notkun olíu á skip, flugvélar og stærri bíla. Auður telur að leita eigi allra leiða til að komast hjá þessu. 

„Það ætti að vera markmið okkar að fara beint í rafmagnið alveg eins og hægt er. Það er hægt í langflestum flokkum þar sem við notum jarðefnaeldneyti í dag nema fyrir fiskiskipin og mjög stór tæki. Innanlandsflugið ættum við að geta rafvætt fyrir 2040. Það er mjög hröð þróun í því. En hins vegar er ekki mjög mikið í kortunum með millilandaflugið. En þar verðum við að sætta okkur við að við getum ekki verið að fljúga til útlanda þrisvar á ári hver einasta manneskja eins og við gerðum fyrir covid,“ segir Auður.