Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ísland framtíðarinnar: Meiri rigning

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Úrkoma verður meiri hér á landi í framtíðinni og þá frekar í formi rigningar en snjókomu. Þetta eru niðurstöður ítarlegra rannsókna Landsvirkjunar á horfum í vatnabúskap eftir að jöklar hafa bráðnað. Veðrinu mun svipa til þess sem nú er í Skotlandi en líklega mun rigna meira en þar gerir. Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir að bráðnun jökla hafi áhrif á vatnabúskap og vatnsaflsvirkjanir. 

„Við höfum lagt mikinn metnað í það á síðustu áratugum, alveg frá því fyrir aldamót, sem vísindamenn Landsvirkjunar fóru í umfangsmiklar rannsóknir á því hvers megi vænta. Við tókum þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og höfum birt mikið af ritrýndum rannsóknum um áhrifin. Þannig að við teljum okkur þekkja býsna vel áhrifin. Til skemmri tíma mun þetta hafa þau áhrif, meðan jöklarnir eru að bráðna því miður, við gerum ráð fyrir að það sé bara staðreynd sem við erum að horfa á, þá mun það þýða aukna orkuvinnslu því við munum fá meira afrennsli af jöklunum. Það er svona tímabil sem er 50-100 ár sem við munum sjá það gerast miðað við þann hraða sem við erum að spá. Síðan tekur við tímabil þar sem við förum aftur í ástandið sem við vorum með fyrir breytingar, með svipaða orkugetu. En þá mun veðurfarið líklega hafa breyst. Við verðum þá líklega með votviðrasamara veðurfar er talið, ekki ósvipað og við sjáum á Skotlandi en jafnvel meiri úrkoma. En hún mun falla meira sem rigning og minna sem snjór. Þannig að það mun verða á suman hátt auðveldara að reka kerfið,“ segir Hörður.

En kannski leiðinlegra að búa hérna?

„Já, auðvitað eru þetta mjög slæmar breytingar. Þó að við séum að horfast í augu við þær í þessum rannsóknum þá eigum við að gera allt  til að koma í veg fyrir þær. En þessar rannsóknir miða fyrst og fremst við þetta ef þetta gerist. En þetta er náttúrulega ekki það sem við viljum og við þurfum að aðlaga okkur að þeim. Og við sem orkufyrirtæki Íslendinga leggjum mikla áherslu á að aðlaga okkur að þessum breytingum og að þær komi okkur ekki á óvart. Þessar rannsóknir okkar vísindamanna hafa vakið mikla athygli erlendis og ég held að það séu fá vatnsorkufyrirtæki í heiminum sem hafa lagt í jafnmiklar rannsóknir og þekkja áhrifin jafn vel og við gerum. Þannig að við erum í þessu eins og öðru að reyna að vanda okkur, gera vel og vinna út frá þeim forsendum sem eru í umhverfinu,“ segir Hörður.