Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vill endurvekja hlutabótaleiðina

15.01.2022 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Veitingamaður með þrjá veitingastaði vill að stjórnvöld endurveki hlutabótaleiðina sem farin var í upphafi faraldurs. Hann segir að eftir tveggja ára faraldur með lokunum og skertum opnunartíma sé staðan orðin mjög þung. Stjórnvöld gefa veitingamönnum færi á að fresta tveimur gjalddögum opinberra gjalda til að bregðast við ástandinu.

 

Frumvarp um aðstoð stjórnvalda við veitingastaði vegna skerts opnunartíma og lokana í faraldrinum birtist á vef Alþingis í gærkvöld. Samkvæmt því mega veitingastaðir fresta tveimur gjalddögum opinberra gjalda og tryggingagjalds á fyrri hluta árs fram yfir á seinni hluta árs og greiða þá á fjórum gjalddögum. Jafnframt fá veitingamenn framlengdan frest til að sækja um viðspyrnustyrki vegna nóvembermánaðar.

Bragi Skaftason kemur að rekstri þriggja veitingastaða í Reykjavík. Hann segir að frestun á tveimur gjalddögum hjálpi en sé afskaplega lítill hluti af heildinni. Hann segir að eftir tvö ár af takmörkunum séu launin að sliga veitingahúsin. Bragi vísar til þess sem gert var í upphafi faraldurs. „Þá kom fram mjög góð leið sem ég vil bara sjá ríkið endurtaka. Það var hlutabótaleið fyrir fyrirtæki sem lenda svona hrikalega í því. Ég er með fullt af starfsfólki sem er á fullum launum hjá mér og hefur ekkert að gera.“

Einn þeirra staða sem Bragi rekur er opinn fjóra tíma á dag í stað átta eða tíu við eðlilegar aðstæður. Tekjurnar eru einn þriðji þess sem vænta mætti. Bragi segir að það gangi ekki að eilífu. Stað sem hann seldi á síðasta ári var lokað um áramót. „Ég hef ekki þurft að segja upp starfsfólki ennþá. Þegar ég segi ekki þurft, ég hef bara þrást við. Ég stend með mínu fólki, ég horfi á þetta sem samvinnufólk sem er sérfræðingar í sinni grein. En ef ástandið heldur áfram að vera jafn slæmt og það er núna og ríkið ætlar ekki að koma til móts við okkur meira en boðað er, ef launaliðurinn verður ekki dekkaður að einhverju leyti, þá þurfum við aðeins að fara að skoða ástandið.“

Bragi segist hafa tekið þá ákvörðun sem veitingamaður og einstaklingur að hafa ekki skoðun á aðgerðum sem ráðist er í til að bregðast við covid-faraldrinum. Til þess séu sérfræðingar að meta hvað þurfi að gera og leggja til leiðir.