Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Vilja að ríkið borgi laun í Covid-veikindaleyfi

Mynd: Andri Yrkill Valsson / Andri Yrkill Valsson
Samtök atvinnulífsins segja að launakostnaður í covid-veikindaleyfi kosti fyrirtæki landsins 100 milljónir á dag og vilja að ríkið greiði laun þeirra sem lenda í einangrun. Forseti ASÍ er ekki hrifin af frekari skilyrðislausum ívilnunum fyrir atvinnulífið.

Síðastliðna daga hafa um og yfir 20 þúsund manns ýmist verið í sóttkví eða einangrun dag hvern vegna omíkrón bylgjunnar. Mörg fyrirtæki hafa þurft að draga úr starfsemi og jafnvel loka tímabundið á meðan starfsfólk flakkar ýmist milli smitgáta, sóttkvía og einangrana. Flækjustigið á vinnumarkaði getur því orðið afar hátt.

„Það er búið að liðka reglurnar fyrir sóttkví og nú getur fólk verið í einhvers konar smitgátarsóttkví en á sama tíma er verið að hvetja okkur til að hafa okkur hæg næstu tvær vikurnar eða svo þannig að þetta eru ansi misvísandi skilaboð,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.

100 milljónir á dag

Samtök atvinnulífsins áætla að launakostnaður vegna starfsfólks í sóttkví eða einangrun kosti fyrirtæki hundrað milljónir króna dag hvern og vilja að ríkið komi til móts við fyrirtæki með því að greiða laun starfsfólks í einangrun. Fyrir því séu fordæmi á Norðurlöndum. „Enda segir það sig sjálft þegar það eru tæplega 20 þúsund manns í sóttkví eða einangrun þá leggst það gríðarlega þungt á vinnumarkaðinn í heild sinni og við því þarf að bregðast,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

En hvers vegna ætti ríkið að borga það sem nú þegar fellur undir samningsbundinn veikindarétt launafólks? „Ríkisstjórnirnar í Danmörku og Svíþjóð hafa sagt að þessi veikindi eru með öðrum hætti en í upphafi þessa faraldurs. Það er að segja að fjöldi einstaklinga er heima en er einkennlaus með öllu, vissulega greint með veiru. Og þau hafa kosið að stíga fram með þessum hætti og ég tel að það væri lag fyrir ríkisstjórn Íslands að gera það með áþekkum hætti.“

Að því gefnu að covid-tengdur launakostnaður fyrirtækja er hundrað milljónir á dag, og ekkert lát verði á omíkron-bylgjunni næstu vikur, má vænta þess að kostnaðurinn hlaupi á milljörðum.

Ekki opnar ríkishirslur án skilyrða

Forseti ASÍ er efins og segir að ef þessi leið yrði farin þá þyrfti það að vera háð ströngum skilyrðum, svo sem að fyrirtæki sem nýttu sér hana greiddu sér ekki út arð. Eða að ríkið greiði laun þeirra sem þegar hafi notað alla sína veikindadaga vegna einangrunar út af covid. „Það væri nær að ríkið myndi stíga inn í þar, aðstoða fólk sem verður af tekjum vegna farsóttarinnar heldur en að opna ríkishirslurnar enn á ný fyrir fyrirtæki skuldbindinga- og skilyrðislaust,“ segir Drífa.

Magnús Geir Eyjólfsson