Tók á móti kraftaverkabarni í 35 þúsund feta hæð

15.01.2022 - 07:15
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Kanadískur læknir tók á móti barni í 35 þúsund feta hæð yfir ánni Níl í byrjun desember. Aisha Khatib var um borð í þotu á leiðinni heim til Toronto í Kanada frá Sádi-Arabíu þegar tilkynning barst um kallkerfið að læknisaðstoðar væri óskað.

Khatib hafði verið lengi á ferðalagi en ferðin með Qatar Airlines frá Doha í Katar til Entebbe í Úganda var þriðji hluti langrar heimferðar þann 5. desember síðastliðinn.

Í frétt breska ríkisútvarpsins af málinu segir að hún hafi verið svo önnum kafin við að sinna covid-sjúklingum eftir heimkomuna að tími hafi ekki gefist til að segja söguna fyrr en nú. 

Þegar kallið barst datt lækninum fyrst í hug að farþegi væri að fá hjartaáfall en þegar til kom var fyrsta barn úganskrar farandverkakonu um það bil að koma í heiminn. Í ljós kom að konan var gengin 35 vikur með barn sitt.

Khatib lét ekki ferðaþreytuna hafa áhrif á sig heldur tók á móti barninu sem fæddist heilbrigt og hraust og var þegar í stað gefið nafnið Miracle Aisha, að hluta til í höfuðið á lækninum.

Khatib fékk aðstoð frá hjúkrunarfræðingi sérhæfðum í krabbameinslækningum og barnalækni sem starfar fyrir samtökin Lækna án landamæra.

Hann skoðaði stúlkuna sem hágrét og staðfesti að allt væri í himnalagi. Þegar Khatib óskaði móðurinni til hamingju með að hafa fætt heilbrigt stúlkubarn í heiminn brutust út mikil fagnaðarlæti meðal annarra farþega.

Móður og barni var boðið að koma sér fyrir í viðskiptafarrými þotunnar eftir fæðinguna og Khatib læknir færði barninu hálsmen sem hún bar með nafninu sínu rituðu í arabísku letri. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV