Starfsmenn leik- og grunnskóla fæstir þríbólusettir

15.01.2022 - 11:06
Grunnskólabörn lesa. Úr umfjöllun Kveiks um læsi.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Flestir starfsmenn leik- og grunnskóla voru bólusettir með Janssen, og hafa því ekki fengið örvunarskammt. Þeir geta því ekki farið í rýmkaða sóttkví og smitgát í stað sóttkvíar. Samkvæmt nýrri reglugerð, sem tók gildi fyrir rúmri viku, þurfa þríbólusettir ekki að fara í fulla sóttkví ef þeir eru útsettir fyrir smiti.

Þeir sem fengu Jansen-bóluefnið þurfa þrjár bólusetningar til að teljast fullbólusettir með örvunarskammt, líkt og þeir sem fengu aðrar tegundir bóluefnis, þrátt fyrir að Jansen hafi verið markaðssett sem eins skammts bóluefni, ólíkt hinum.

Samkvæmt svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn umboðsmanns Alþingis, hafi komið í ljós að einn skammtur af Janssen standi alls ekki jafnfætis tveggja skammta bóluefnum til að draga úr smiti eða alvarlegum veikindum af völdum nýrri afbrigða kórónuveirunnar, svo sem delta. Til þess að falla undir nýja reglugerð um rýmkaða sóttkví og smitgát þríbólusettra, þurfa þeir sem fengu upphaflega Jansen-sprautuna því að fá örvunarskammt, þó að þeir hafi þegar fengið viðbótarskammt, nema þeir hafi fengið covid í millitíðinni.

Þríbólusettir mega til dæmis sækja vinnu, fara í matvöru- og lyfjaverslanir, sækja nauðsynlega þjónustu og nota almenningssamgöngur, þrátt fyrir að hafa verið útsettir fyrir smiti.

Geta ekki sloppið við fulla sóttkví fyrr en um miðjan febrúar

Þeir sem fengu Janssen og viðbótarskammt sumarið 2021 geta átt von á boði í þriðja skammt frá janúarlokum, segir í bréfi heilbrigðisráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis.

Fæstir starfsmenn leik- og grunnskóla geta losnað við að fara í fulla sóttkví fyrr en í fyrsta lagi um miðjan næsta mánuð, þar sem verkunartími bóluefna er um tvær vikur. Því er viðbúið að sóttkví starfsmanna hafi áfram töluverð áhrif á skólastarf.