Óttaðist að kastast hefði í kekki milli hans og Kára

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV

Óttaðist að kastast hefði í kekki milli hans og Kára

15.01.2022 - 08:00

Höfundar

Skemmtiatriði í lok fréttaannáls fréttastofu RÚV vakti mikla athygli, þar brugðu Kári Stefánsson og Karl Örvarsson á leik og endurgerðu frægt atriði úr áramótaskaupinu 1985. „Það virkar eins og við séum búnir að lesa þetta saman í 40 ár,“ segir Karl, sem var ánægður með samstarfið.

Það er ekki öllum gefið að herma eftir öðrum. Þetta var aðalskemmtunin á árum áður, þar sem hermt var eftir stjórnmálamönnum og öðru þekktu fólki, en svo tóku önnur form skemmtiefnis yfir. Eftirherman þótti lummó um skeið en nú virðist hún meira móðins. Karl Örvarsson, athafnamaður og tónlistarmaður, er ein slík og hefur vakið athygli fyrir að herma eftir þjóðþekktu fólki um nokkurt skeið.

Innra sjálf Kára Stefánssonar

Karl tók upp á því fyrir nokkru að birta pistla á Facebook-síðu sinni þar sem hann hermir eftir Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Dag einn fékk hann símtal frá Kára, sem sagðist vilja fá að vera með í gríninu. „Þá sagði hann þetta snúa beint að honum og hann hlyti því að vera hluti af þessu,“ segir Karl í viðtali við Björn Þór Sigbjörnsson í Morgunvaktinni á Rás 1. „Það liðu tveir dagar þar til ég var fenginn í viðtal á útvarpsstöð og þar hittumst við í fyrsta skipti við félagarnir, þar kallaði hann mig sitt innra sjálf og hann hlyti þess vegna að hafa rétt á því að eiga í spjalli við sitt innra sjálf.“

Karl óttaðist hins vegar að kastast hefði í kekki milli þeirra eftir að hann brá sér aftur í líki Kára, hringdi í nágranna hans og óskaði eftir því að fá klósettpappír að láni.

Mynd: Karl Örvarsson / Samsett
Hér má heyra símaatið.

„Ég var farinn að kvíða símtali, sem svo kom, þegar ég var að keyra dóttur mína í vinnuna.“ Karl svaraði og Kári vatt sér beint að efninu, sagði Karl hafa klúðrað málinu og hótaði að siga lögfræðingum á hann. Karl spurði þá skelkaður hvort hann ætti að gefa sig fram við yfirvöld, en þá reyndist þetta bara vera enn annað spaugið og Kári viðurkenndi að honum hefði þótt atið nokkuð skondið.

Persónurnar síast inn

Kári Stefánsson er með sérstakt tungutak og beitir gjarnan sérfræðimáli, ætla mætti að Karl hefði þurft að leggja á sig þónokkra vinnu til að ná honum eins vel og reynst hefur en sú er ekki raunin.

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Kári Stefánsson og Karl Örvarsson endurgerðu 36 ára gamalt atriði úr Áramótaskaupinu í lokaatriði Fréttaannáls RÚV.

„Það er það skrýtna við þetta. Ég kom í veiði til félaga minna, menn voru kátir úti á palli og báðu mig um að herma eftir Kára.“ Hann hafði þá aldrei hermt eftir manninum og hafði ekki hugsað sér að byrja með skemmtiatriði, nýmættur í veiðina. „Svo byrjaði ég bara að romsa og ég losnaði ekkert úr Kára. Þetta var bara þarna. Ég þurfti ekkert að æfa tungutakið. Ég var hans innra sjálf. Ég hafði hann að geyma einhvern veginn. Þetta síast furðulega inn.“

Annað símtal frá Birni Jörundi

Karl, sem segist hafa orðið eftirherma fyrir hálfgerða slysni, játar að hafa misnotað þennan hæfileika og nefnir það þegar hann, í líki Björns Jörundar Friðbjörnssonar, las inn á auglýsingu fyrir veitingastað. „Svo hringir í mig maður nokkrum dögum seinna, segir ekki farir sínar sléttar gagnvart mér.“ Þá var Björn Jörundur sjálfur á línunni, og sagði, samkvæmt endursögn Karls: „Þú gerir þér grein fyrir hvað þú ert að gera Karl? Ég er ein dýrasta auglýsingarödd landsins, samningsbundinn NOVA, svo fæ ég símtal um að ég sé að lesa auglýsingu fyrir einhverjar andasamlokur úti í bæ. Nú gekkstu of langt Karl.“

Hann nefnir símaöt sem annað dæmi, sem hann hafi fengið greiðslur fyrir. „Ég gerði eiganda tískuverslunar kolbrjálaðan í útvarpsviðtali, þar sem Björn Jörundur er að hösla út fatadíl og hann var svo frekur, ágengur og grófur við aumingja manninn. Þetta gekk alltof langt, í beinni útsendingu.“ Hann var með óbragð í munninum eftir það, þótti það illa gert og því ekki líklegt að sá leikur verði endurtekinn.

Rætt var við Karl Örvarsson í Morgunvaktinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Innlent

Endurgerðu eldgamalt atriði úr Áramótaskaupinu