Ísland réði illa við Suður-Kóreu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Ísland réði illa við Suður-Kóreu

15.01.2022 - 13:21
Ísland lék vináttuleik við Suður-Kóreu í Tyrklandi í dag. Ungt og reynsluminna lið Íslands átti erfitt með að ráða við lið Suður-Kóreu sem vann að endingu 5-1 sigur.

Ísland spilaði vináttuleik við Úganda á miðvikudag sem lauk með 1-1 jafntefli. Jón Daði Böðvarsson skoraði mark Íslands í þeim leik en miklar breytingar voru gerðar á byrjunarliðinu milli leikja eins og oft vill vera í æfingarleikjum. Arnór Ingvi Traustason var fyrirliði liðsins líkt og í síðasta leik en auk hans voru Viktor Karl Einarsson og Ari Leifsson þeir einu sem héldu stöðu sinni í byrjunarliðinu. 

Fyrsta mark leiksins skoraði Cho Guesung fyrir Suður-Kóreu á 15. mínútu. Á 24. mínútu var vítaspyrna dæmd á Ara Leifsson fyrir brot á Guesung en Hákon Rafn Valdimarsson gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna frá Kwon Changhoon. Það tók Changhoon hins vegar aðeins tæpar tvær mínútur að svara fyrir sig og staðan því 2-0 eftir 27. mínútna leik. Tveimur mínútum síðar var staðan svo orðin 3-0 eftir mark frá Paik Seungho og þannig stóð í hálfleik. 

Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði eina mark Íslands í leiknum á 54. mínútu eftir að hafa fylgt á eftir eigin skoti inni í vítateig Suður-Kóreumanna, 3-1. Suður-Kórea náði svo að bæta við tveimur mörkum áður en leiktíminn var úti. Kim Jingyu breytti stöðunni í 4-1 og Eom Jisung rak svo smiðshöggið á góða frammistöðu liðsins með fimmta markinu á 86. mínútu. 

Næstu leikir landsliðsins verða í mars en þá mætir það Spáni og Finnlandi í vináttuleikjum á Spáni.